Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Býst við hamfaramengun á gamlárskvöld

29.12.2017 - 19:13
Mynd: wikimedia.org / wikimedia.org
Umhverfisverkfræðingur segir að yfirvofandi loftmengun á höfuðborgarsvæðinu vegna flugelda á gamlárskvöld, verði helst líkt við mengun í kjölfar náttúruhamfara. Hún telur að setja ætti hömlur á flugeldasölu til að sporna gegn svifryksmengun.

Það er viðbúið samkvæmt veðurspám, sem gera ráð fyrir vetrarstillum, að það viðri einstaklega vel til flugeldanotkunar á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld. Algengur fylgifiskur góðviðrisins er aukin flugeldasala, og í ljósi vaxandi kaupmáttar og neyslu má því fastlega búast við að landinn slái hvergi af í innkaupum á flugeldum. Annar og verri fylgifiskur flugelda er stóraukin svifryksmengun, sem aldrei mælist meiri á höfuðborgarsvæðinu en þegar borgarbúar kveðja árið og heilsa því nýja.

Hrund Ólöf Andradóttir, umhverfisverkfræðingur og prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, á von á loftmengun á gamlárskvöld af stærðargráðu eins og eftir náttúruhamfarir. „Ég held að það mælist ekki mengun af þessu tagi nema við eldgos, svona að staðaldri, þannig að þetta er komið á þann skala,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Gríðarleg loftmengun í uppsiglingu

Hrund segir að búast megi við því að loftmengun í höfuðborginni á gamlárskvöld verði hundraðfalt meiri en æskilegt sé. Við slíkar aðstæður sé varhugavert fyrir fólk með öndunarfærasjúkdóma að vera úti við, og þá finni frískir sömuleiðis fyrir slíkri mengun.

„Þetta er ryk sem festist og fer djúpt ofan í lungun og getur leitt til alls konar vandamála síðar meir á ævinni,“ segir Hrund. „Flugeldar innihalda þungmálma og þungmálmar eru eiturefni. (Þeir) brotna ekki sjálfkrafa niður í náttúrunni, þannig að allt sem við losum út, fer auðvitað bara eitthvert.“

Á skjön við aukna umhverfisvitund almennings

Talið er að losun flugelda á þungmálmum, geti numið tíu til þrjátíu prósentum af heildarlosun efnanna á einu ári á landsvísu.

Hrund segir vaxandi flugeldasölu á skjön við aukna umhverfisvitund almennings, sem helst megi rekja til velvildar í garð björgunarsveita, sem selji vöru í fjáröflunarskyni sem sé í senn hættuleg og mengandi. „Ég tel að það séu svolítið hættuleg tengsl þarna á milli og það væri mjög ánægjulegt að sjá einhverja umræðu um hvernig björgunarsveitirnar gætu mögulega fjármagnað sig með öðrum leiðum.“

Hömlur og sérstakt skilagjald

Hrund telur að setja ætti hömlur á flugeldasölu til að sporna gegn svifryksmengun, og að taka ætti upp sérstakt skilagjald fyrir skottertur sem liggi eins og hráviði víða um borg löngu eftir gamlárskvöld.

„Það er hægt að skoða bara líka aðrar leiðir til þess að hafa gaman á gamlárskvöld,“ segir hún. „Til dæmis með lazer-sýningum, þær eru víst rosalega vinsælar á Spáni segja nemendur mínir, þannig að það er svo margt sem er hægt að gera ef við viljum fara út í þá samræðu.“       

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV