Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bylting að birta málaskrár ráðuneyta

10.03.2019 - 16:00
Eiríkur Jónsson, prófessor í lögfræði og formaður nefndar um löggjöf á sviði tjáningarfrelsis. - Mynd:  / 
Málaskrár ráðuneytanna verða aðgengilegar að hluta á vefnum, verði tillögur nefndar um löggjöf á sviði tjáningarfrelsis að lögum. Á dögunum skilaði nefndin af sér drögum að níu frumvörpum.

Rætt var við formann nefndarinnar, Eirík Jónsson, prófessor í lögfræði, í Silfrinu í dag. Hann segir að birting málaskár auðveldi fjölmiðlum að orða beiðnir um upplýsingar og að sömuleiðis verði stjórnsýslan opnari líkt og gert hafi verið í Noregi. Þetta þurfi þó að undirbúa vel innan ráðuneytanna.  

„Í frumvarpinu er verið að stíga mjög stór skref í átt til þess að veita fjölmiðlum betri upplýsingar um hvað þeir geta beðið um. Nú er mælt fyrir um að frá og með ákveðnum tímapunkti eigi ráðuneyti í Stjórnarráðinu að birta málaskrár sínar með rafrænum hætti. Það er náttúrulega algjör bylting af því að það hefur alltaf verið þessi slagur, hvernig áttu að afmarka beiðnina, hvað ertu að biðja um og svo framvegis. En þarna verður þetta þannig að málaskráin er birt mánaðarlega,“ sagði Eiríkur. 

Öll mál sem sem eru til komin vegna inn- og útsendra erinda verða birt, að sögn Eiríkis. Síðar væri hægt að birta upplýsingar um gögn sem tilheyra málum og jafnvel gögnin sjálf. 

Nefndin leggur einnig til að mál tengd stjórnsýslu hjá Alþingi og dómstólum verði gerð aðgengileg, til dæmis er varða rekstur stofnananna. Dæmi um það sé hátíðarþingfundurinn á Þingvöllum síðasta sumar þar sem togstreita var um það hvaða upplýsingar ætti að birta. Sem kunnugt er var kostnaður við hann víða gagnrýndur.