Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Bylting á ógnarhraða“

Mynd:  / Pexels

„Bylting á ógnarhraða“

13.10.2017 - 14:01

Höfundar

„Ég er ekki alveg viss um að notendur allra þessara miðla, hvort sem þeir nefnast Tinder, Facebook, Snapchat, Twitter, Spotify, séu almennilega að átta sig á því hvað er að gerast bakvið tjöldin,“ segir Margeir Steinar Ingólfsson plötusnúður. Hann segir aðganginn að gagnabönkunum bæði aðgengilegri og ódýrari en margir gætu haldið, og að byltingin sé að gerast á ógnarhraða.

„Það sem er að gerast, í hvert skipti sem við notum þessi öpp eða þennan hugbúnað, þá er öll okkar hegðun innan miðlanna sett í risastóran gagnagrunn. Þetta eru upplýsingar eins og hvað við lesum, hvað við lækum, hvað við smellum á. Hverjum við tengjumst, hverjum við hættum að tengjast,“ segir Margeir. „Svo eru líka tengingar á milli forrita, frá Tinder yfir á Facebook og þaðan yfir á Spotify og til baka. Þessi forrit eða þessi hugbúnaður hann getur líka staðsett mann hverju sinni, hvert maður er að ferðast; hvort sem það er innanlands eða utan.“ Hann bætir við að hugbúnaðurinn geymi líka upplýsingar á borð við hvar notendur vinni, heimilisföng viðkomandi og jafnvel hverja þeir hitta á förnum vegi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margeir Steinar Ingólfsson plötusnúður og sérfræðingur í samfélagsmiðlum.

Kerfin þekkja okkur

 „Í raun og veru þá er þetta bara partur af skilmálunum, þessi gagnasöfnun. Að vissulega geturðu lokað fyrir ákveðnar tegundir af þessum upplýsingum, hvar þú ert staðsettur og svo framvegis. En það eru bara fæstir sem gera það,“ segir hann. „Svo nær þetta líka aðeins út fyrir þessi öpp, það nær líka inn á leitarvélar. Google safnar gögnum um okkur, að hverju við erum að leita.“ Hann segir að upplýsingarnar segi mun meira um notendur sem persónur en þeir gefa út sjálfir, eða segjast vera. „Ég segist vera ákveðinn einstaklingur, svona og svona, en það er miklu meira að marka mína hegðun og hvað ég geri síðan, heldur en þetta. Þannig að það sem ég er að ýja að núna er að þessi kerfi eru kannski farin að þekkja okkur betur en við þekkjum okkur sjálf.“

Margeir segir að gagnasöfnunin sé ekki aðeins notuð til að matreiða fyrir notendur efni sem þau kunna að hafa áhuga á, heldur séu upplýsingarnar notaðar til að selja ákveðna vöru og þjónustu, sem líklegt þykir að notendur muni kaupa.

Hvaða fyrirtæki sem er geta keypt aðgang

„Þannig að þessi klassíska setning á hér vel við, ef þú borgar ekki fyrir vöruna, þá ert þú varan.“ Margeir tekur sem dæmi samfélagsmiðlana Facebook, Instagram, Watsapp og Messenger. „Fjögur af örugglega sex stærstu svona öppum í heimi, þar sem eru flestir notendur, þeir í raun og veru eru með sameiginlegt auglýsingakerfi sem þeir selja fyrirtækjum aðgang að.“ Margeir segir að hvaða fyrirtæki sem er geti keypt aðgang að þeim gagnagrunni.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Gagnagrunnar búa yfir gríðarlegu magni persónuupplýsinga.

„Þeir í raun og veru kaupa upplýsingar. Ef við tökum sem dæmi að ég sé að selja einhverja vinsæla vöru eins og Apple TV, þá get ég sem sölumaður fyrir svona tæki, farið inn í þetta auglýsingakerfi og flett upp í þessum gagnagrunni“.

Klæðskerasaumaðar auglýsingar

Hann segir að auglýsendur geti þannig klæðskerasaumað auglýsingar eftir markhópum. „Og ég skal taka dæmi: Segjum sem svo að ég ætli að veðja á það að foreldrar ungra barna vilji eftir erfiðan vinnudag skella börnunum fyrir framan teiknimyndir, þetta eru svona senur sem maður getur séð fyrir sér, þá gæti ég fyrir þennan hóp, farið innan í kerfið, sett inn upplýsingar: „komdu með alla foreldra barna 2-8 ára á Reykjavíkursvæðinu.“ Og ég hef prófað þetta, þetta eru 22.000 manns, sirka. Og svo get ég byrjað að framleiða efnið, og lykilatriðið hér er að ég get framleitt það á þeirra forsendum.  Ég get sagt: „Besta barnaefnið er á Netflix, hér er Apple TV til að tengjast við Netflix, það er á sérstöku tilboðsverði núna, gjörðu svo vel, ef þú hefur áhuga.““ Hann segir að þó sé ekki hægt að fá upplýsingar um nákvæmlega hverjir séu í hópnum.

„Svolítið krípí“

Aðspurður segir hann að fyrirtæki um allan heim sé að gera þetta, en þó séu mörg fyrirtæki ekki enn búin að átta sig á möguleikanum. „Þá kemur að spurningunni: getur þetta ekki verið svolítið krípí? Að allar auglýsingar sem þú sérð séu svona ótrúlega áhugaverðar fyrir þig sem persónu?“

Hann segir að dæmi séu um samfélagsmiðla sem hafa lofað að selja ekki gögnin áfram. „Þeir hafa ekki náð neinu flugi, þessir miðlar, og það segir okkur bara það að kannski er notendum bara slétt sama um gögnin sín. Og kannski mun þróunin verða sú að eftir nokkur ár, að þetta muni kannski pínulítið snúast við. Í staðinn fyrir að fólki finnist þetta pínu krípí, að þá segi það „bíddu, hér er einhver auglýsing fyrir vöru sem ég hef engan áhuga á. Afhverju er ég að sjá þetta?“, þetta gæti alveg endað þannig.“

Trump notaði kerfin

Aðspurður um kostnað við slíka þjónustu svarar hann: „Í rauninni borgarðu fyrir birtinguna, en ekki fyrir aðganginn að grunninum. Og ég get sagt þér það að þetta er mun ódýrara heldur en að auglýsa á hefðbundnum miðlum. En varðandi svona framtíðina, þá er náttúrulega svona pínu áhugavert að skoða atvikin í til dæmis Bandaríkjunum, í forsetakosningunum núna síðast.

epa06157013 US President Donald J. Trump addresses the crowd at a campain rally in Phoenix, Arizona, USA, 22 August 2017. Trump delivered the speech one day after a news conference in which he announced his strategy for the war in Afghanistan, and in the
Donald Trump boðar innflutningstolla á ál og stál til verndar bandarískum iðnaði. Mynd: EPA
Donald Trump forseti Bandaríkjanna,.

„Þar var til dæmis Trump að nota kerfið á þennan hátt sem ég lýsti, en bara á mjög siðlausan hátt. Hann var að tala í kross, reyndar eins og hann gerir svolítið gjarnan, og senda skilaboð á blökkumenn í ákveðnum ríkjum, kynda undir rasisma í öðrum ríkjum, og svo framvegis. Til þess í raun og veru, að ná kjöri.“

Valdamesti maður heimssögunnar

„Eins og allir vita þá náði hann kjöri, í það sem sumir vilja meina að sé valdamesta embætti í heimi. En er þetta valdamesta embætti í heimi? Það er líka góð spurning. Er ekki einhver annar sem er bara valdameiri en hann? Er það ekki kannski bara Mark Zuckerberg sjálfur? Þar erum við með mann sem að ræður hvað við lesum,  hvernig okkur líður og hvaða ákvarðanir við munum taka.“ Hann bætir við að hugsanlega hafi aldrei verið til jafn valdamikill maður í heimssögunni og Mark Zuckerberg.  

epa05130275 (FILE) A file picture dated 04 April 2013, shows Facebook co-founder and CEO Mark Zuckerberg speaking during an event at the Facebook headquarters in Menlo Park, California, USA. Smartphone advertising fueled record earnings on 27 January 2016
 Mynd: EPA - EPA FILES
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.

„Ástæðan fyrir því að fólk og yfirvöld eru að sofa pínulítið á verðinum gagnvart þessu, þessari gagnasöfnun, er kannski ekki síst sú að þetta er bylting sem er að gerast á ógnarhraða, ef við setjum til dæmis aðeins í samhengi við aðra, til dæmis hefðbundnari miðla. Þá tók það útvarpið 38 ár að ná 50 milljón hlustendum. Það tók sjónvarpið 13 ár, en það tók Instagram 18 mánuði.“

Margeir Steinar Ingólfsson ræddi við Önnu Gyðu Sigurgísladóttur í Lestinni á Rás 1, 28. september 2017.

Tengdar fréttir

Innlent

Hertar reglur vegna vinnslu persónuupplýsinga

Tækni og vísindi

Ryksugur sem safna persónuupplýsingum

Innlent

Persónuupplýsingar eru dýrmæt söluvara

Evrópa

Flugfélög geta deilt persónuupplýsingum