Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Byggja upp innra eftirlit með lögreglu

03.11.2014 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Vinna við að byggja upp innra eftirlit með störfum lögreglunnar hófst síðastliðið sumar, sagði forsætisráðherra á Alþingi í dag. Hann gerir ráð fyrir að slíkt eftirlit muni hafa svipað sjálfstæði innan stjórnkerfisins og saksóknarar geri í dag.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætis- og dómsmálaráðherra, hvort hann teldi ástæðu til að byggja upp innra eftirlit sem hefði eftirlit með störfum lögreglunnar. Helgi Hrafn spurði einnig út í hvernig staða slíks eftirlits yrði gagnvart lögreglunni.

Sigmundur Davíð sagði best að slíkt eftirlit heyrði ekki undir sömu stjórn og lögreglan. Hann sagði að þræðirnir þyrftu einhvers staðar að liggja saman og það hafi hingað til gerst í innanríkisráðuneytinu. Hann tók þó fram að jafnvel þar væru liðir eins og saksóknarar sem nytu mikils sjálfstæðis. „Ég geri ráð fyrir að embætti eða starfsmenn sem hefðu það hlutverk að hafa innra eftirlit með lögreglunni hefðu slíkt sjálfstæði líka.“

[email protected]