Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Byggingaverktökum úti á landi gengur betur

30.04.2018 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Hækkandi íbúðaverð á landsbyggðinni og aukin sala hafa orðið til þess að byggingaverktakar þar geta í fyrsta sinn í mörg ár selt eignir vel fyrir kostnaði. Um leið hafa þeir getað endurnýjað tækjabúnað og eru betur útbúnir en áður.

Fasteignasala hefur aukist talsvert á vissum svæðum úti á landi og íbúðaverð hækkað um leið. Í þeim landshlutum geta verktakar nú selt, húsin sem þeir byggja, fyrir kostnaði í fyrsta sinn í langan tíma. 

Söluverð dugir orðið fyrir byggingakostnaði

Á Akureyri er meira byggt en mörg undanfarin ár. Þar voru um 200 eignir í byggingu um áramót og íbúðaverð hækkaði á síðasta ári um 22 prósent. Söluverð íbúða á Akureyri dugir því orðið vel fyrir byggingarkostnaði. Um þetta var fjallað á Morgunvaktinni á Rás eitt.

Tekist endurnýja búnað í fyrsta sinn í mörg ár

Helgi Örn Eyþórsson, verkefnisstjóri hjá SS Byggi, segir að þessi þróun sé hagstæð fyrir verktakana og aðstaða þeirra hafi batnað mikið.„Byggingaverktakar hafa loksins, í fyrsta skipti í ansi langan tíma, náð að endurnýja örlítið af búnaði, mótum, og maður sér nýja krana og annað slíkt. Sem gefur okkur vísbendingar um að menn eru að ná að hafa fyrir byggingarkostnaði, kannski í fyrsa skipti úti á landi í dálítið mörg ár."

Verkefnin orðin sjálfbær

Og þegar verkefnin séu orðin sjálfbær, þurfi ekki lengur að halda í gömul og úrelt tæki. Öfugt við það sem var til dæmis þegar farið var að byggja fyrstu árin eftir hrun. „Og menn voru að nota gömlu tækin og gömlu kranana og reyndu að halda öllu gangandi, en gátu í rauninni ekki reiknað sé neinar tekjur fyrir þann búnað sem að menn lögðu til verksins," segir Helgi.