Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Byggingarleyfi umdeilds búsetúrræðis fellt úr gildi

04.03.2020 - 08:34
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Horft yfir Breiðholt frá Vatnsendahæð. Mynd: RÚV - Dreifikerfi
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur fellt úr gildi byggingarleyfi umdeilds búsetuúrræðis við Hagasel þar sem það er 27 fermetrum of stórt, samkvæmt deiliskipulagi. Kröfu um að deiliskipulag lóðarinnar yrði fellt úr gildi var hins vegar hafnað.

Tæplega 800 manns rituðu undir mótmælalista vegna íbúðakjarnans. Þar komu meðal annars fram áhyggjur um að í íbúðakjarnanum yrði fólk með geðfötlun og virkan fíknivanda.  

Íbúðakjarninn á að vera með átta íbúðum og er hugsaður fyrir fólk með geðfötlun. Hann tekur ekki til starfa fyrr en öðru úrræði við Rangársel verður lokað.  Borgin tók jafnframt fram að enginn í virkri neyslu fengi íbúð og að hann yrði mannaður starfsfólki allan sólarhringinn.

Í kæru nokkurra íbúa til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að fyrirhugað húsnæðið leiði til aukinnar umferðar sem valdi auknu ónæði fyrir íbúa í nærliggjandi húsum ásamt því að vera ógn við öryggi barna í hverfinu. 

Þeir sögðu starfsemi húsnæðisins ekki styðja fjölbreytta þróun byggðarinnar, hún væri ekki í samræmi við þarfir hverfisins og íbúa þess og hefði í för með sér mögulega ógn við öryggi.  Þá áskildu þeir sér rétt til skaðabóta þar sem eign þeirra gæti lækkað í verði í ljós nálægðar við fyrirhugað búsetuúrræði.

Borgin benti á að lóðin hefði frá upphaflegu deiliskipulagi Seljahverfis verið sýnd sem verslunar-og þjónustulóð.  Þá hefðu yfirvöld sent íbúum bréf þar sem vakin var athygli á að athugasemdafrestur hefði verið framlengdur og það væri umfram lögmælta tilkynningarskyldu sveitarfélaga.

Úrskurðarnefndin taldi ekki að ekki væru annmarkar á breytingu deiliskipulagsins sem raskað gætu gildi hennar. Einungis væri verið að skipuleggja uppbyggingu á einni óbyggðri lóð í grónu hverfi og ekki lægi fyrir að umferð myndi aukast umfram það sem búast hefði mátt við. Kæru um að deiliskipulagið yrði fellt úr gildi var því vísað frá.  Hins vegar væri brúttóflatarmál byggingarinnar ekki í samræmi við skipulagsáætlanir og því væri óhjákvæmilegt að fella byggingarleyfið úr gildi.