Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Byggingarfulltrúinn í leyfi

11.05.2017 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Byggingarfulltrúi í Reykjanesbæ sem afgreiddi teikningar fyrir mun hærri hús United Silicon en deiliskipulag heimilar er kominn í leyfi frá störfum. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, staðfestir að byggingafulltrúinn sé ekki við vinnu en vill ekki tjá sig um ástæður leyfisins. Hann segir að málið sé í skoðun.

Tvær byggingar United Silicon eru stærri en heimilt er samkvæmt skipulagi. Þær mega mest vera 25 metrar að hæð en önnur er 30 metrar og hin 38 metrar að hæð. Teikningar fyrir húsin voru samþykktar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa í nóvember 2015. Þann fund sátu byggingarfulltrúinn og einn embættismaður. Lögum samkvæmt ber byggingarfulltrúinn ábyrgð á afgreiðslu mála á slíkum fundum.

Kjartan Már sagði í fréttum RÚV undir lok síðasta mánaðar að allt benti til að mistök hefðu verið gerð þegar teikningar af verksmiðju United Silicon voru samþykktar. Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, sagði stofnun sína líta málið alvarlegum augum. 

Vefurinn Suðurnes.net greindi frá leyfi byggingafulltrúans í dag.