Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Byggfræ skera úr um aldur skálans

22.04.2017 - 19:18
Mynd með færslu
Unnið í uppgreftri í Lækjargötu.  Mynd: RÚV
Aldursgreiningar á byggfræjum sem grafin voru upp úr gólfi landnámsskálans í Lækjargötu staðfesta að hann var byggður á fyrstu árum landnáms. Fornminjarnar hafa breytt hugmyndum manna um fyrstu byggð í Reykjavík.

Lísabet Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og hennar teymi, hófu uppgröft í Lækjargötu í maí 2015 og hugðust grafa þar upp 19. aldar hús. Þau komu niður á skála sem var eldri en þau áttu von á því í torfveggjum sem grafnir voru upp mátti sá landnámsgjóskuna sem féll í kringum 871. Skálinn gat því verið frá fyrstu árum Íslandsbyggðar. 

„Hann kom bara verulega á óvart og breytti í rauninni það sem við héldum að við vissum um sögu Reykjavíkur og þessa elstu byggð.“

Byggfræ sem grafin voru upp úr gólfi skálans voru send til aldursgreiningar „Aldursgreiningin sem við fengum núna í þessum mánuði var að þessi skáli er frá  10. öld.“ Skálinn var reistur einhvern tímann á árunum 865 til 1015.

Ekkert er vitað um hverjir áttu heima í skálanum en líklega hefur það verið harðduglegt fólk sem hélt skepnur því fjós var í suðurenda skálans.  Einnig var grafið sunnan megin við gamla Iðnaðarbankahúsið og þar fundust minjar um einhvers konar smiðju eða útihús. 

„Það voru sem sagt leifar þar af mannvirkjum sem við teljum vera samtíða skálanum en þessar leifar voru mjög raskaðar.“

Áður en skálinn í Lækjargötu var grafinn upp var vitað um landnámsbyggð í vesturhluta kvosarinnar. Þar er Landnámsskálinn í Aðalstræti og einnig hafa fundist þar leifar af þremur til fjórum öðrum skálum. Á Alþingisreitnum var einnig grafið upp vinnusvæði þar sem fundust minjar um smiðjur, járnvinnslu og kolagrafir. Landnámsskálinn í Lækjargötu hefur þannig breytt hugmyndum manna um fyrstu byggð í Reykjavík sem var umfangsmeiri en áður var talið. 

„Að hluta til er þetta samtíða skálinn í Lækjargötu og skálinn í Aðalstræti eru byggingar sem eru í notkun á sama tíma þannig að einhver samgangur hefur verið þarna á milli.“ „Þannig að Reykjavík hefur byrjað að byggjast þarna mjög fljótt?“ „Já og það er eitthvað munstur í gangi hérna í Reykjavík en annars staðar á landinu. Það er bara mun umfangsmeiri byggð. Það eru fleiri byggingar á svona litlu svæði. Það er eitthvað annað í gangi.“

Talið er að skálinn hafi verið mun stærri en sá hluti sem nú hefur verið grafinn upp. Hann hefur líklega náð alveg út í Skólastræti. Teknir verða könnunarskurðir í Skólastræti með vorinu til að kanna hvort enn þá séu leifar af honum undir götunni.