Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Byggðu safn til minningar um bróður sinn

01.05.2018 - 07:30
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
„Sagan á bak við safnið er sú að Sigurgeir bróðir okkar byrjaði að safna fuglseggjum þegar hann var krakki og þegar hann var tvítugur fór hann að hirða dauða fugla og láta stoppa þá upp," segir Stefanía Stefánsdóttir, umsjónarmaður Fuglasafns Sigurgeirs við Mývatn.

Álfdís, systir hennar bætir við að þegar safnið var orðið nokkuð myndarlegt hafi hann raðað því upp í litlum skúr heima á Ytri - Neslöndum og boðið fólki að skoða það þar.

„Síðan deyr Sigurgeir í slysi á Mývatni þrjátíu og sjö ára gamall og þá vissum við ekki hvað við ættum að gera við safnið. Ein leiðin var að selja það í burtu en það vildum við ekki. Okkur langaði að heiðra minningu Sigurgeirs og niðurstaðan var sú að byggja húsnæði sem passaði utan um safnið," segir Álfdís Stefánsdóttir.

Á safninu eru núna yfir þrjú hundruð uppstoppaðir fuglar og þar er að finna alla íslenska varpfugla, nema þórshanann. „Hann er svo sjaldgæfur og náttúrulega friðaður og það hefur ekki fundist nema einn dauður þórshani á síðustu tuttugu árum," segir Stefanía.

gislie's picture
Gísli Einarsson
eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir