Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Byggðin í Vík í hættu verði hlaup

24.07.2014 - 19:35
Hamfarir · Innlent · Katla
Mynd með færslu
 Mynd:
Ljóst þykir að ekki varð hlaup í Múlakvísl í byrjun júlí heldur vatnavextir í kjölfar mikillar úrkomu. Augu manna eru þó stöðugt á kvíslinni, því ef Katla lætur á sér kræla fylgir því hamfarahlaup sem gæti farið í Múlakvísl og haft mikil áhrif á byggðina í Vík.

Almannavarnayfirvöld á Suðurlandi héldu í gærkvöldi íbúafund í Vík í Mýrdal þar sem rætt var um afleiðingar og viðbrögð við Kötluhlaupi og stöðuna í Kötlu, eftir lítilsháttar hræringar í byrjun mánaðarins. „Staðan í Kötlu er nú væntanlega sú að það sé ekki ástæða til að halda að það séu auknar líkur á Kötlugosi á næstu vikum eða mánuðum heldur en venjulega er. Hitt er svo annað mál að maður á bara alltaf að vera viðbúinn Kötlugosi því það er ekki víst að það verði meira en nokkrir klukkutímar sem við fáum sem forboða,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Munurinn á Kötlugosi og nýlegum gosum í Grímsvötunum og Eyjafjallajökli er sá að Kötlugosi fylgir Kötluhlaup. „Það sem fylgir Kötlugosum eru þessi stóru Kötluhlaup og það er af því að ísinn er þykkur og mikill í Kötluöskjunni og gosin verulega  stór. Þannig að það eru svona níutíu prósent líkur á að slíkt hlaup færi nður Mýrdalssand og það mundi þá taka niður verulegan hluta vegarins og slíkt.“

Nýir útreikningar, sem gerðir voru í hermilíkani í tengslum við brúargerð við Múlakvísl sýna að hætta er á að hlaupið gæti farið yfir varnargarða vestan fljótsins og einnig að það geti valdið flóðbylgju í sjónum sem næði inn í neðri byggðina í Vík. „Ef þetta gerðist geta orðið verulegar skemmdir í Vík en þetta breytir hinsvegar engu um viðbragðsáætlanir Almannavarna vegna þess að það er inni í þeim að rýma neðri hluta Víkur, í öllu falli,“ segir Magnús.