Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Byggðasaga Stranda kostar 21 milljón

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitastjórn Strandabyggðar og þrjú nærliggjandi sveitarfélög hafa samþykkt að kaupa og gefa út Byggðasögu Stranda sem hefur verið í ritun frá árinu 1980.

Á fundi sveitastjórnar Strandabyggðar í vikunni var samþykkt að kaupa verkið, sem er nánast tilbúið og gefa það út. Kaupverðið er 12 milljónir króna og er seljandi Búnaðarsamband Strandamanna.

Áætlaður útgáfukostnaður er síðan um 9 milljónir króna og því er heildarkostnaður um um 21 milljón króna. Verkið kemur út í tveimur bindum, alls þúsund blaðsíður. Prenta á þúsund eintök og seljist bókin upp fá sveitarfélögin um 15 milljónir króna upp í kostnað.  Auk Strandabyggðar koma að kaupunum Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Húnaþing vestra.

Aðspurð hvort 21 milljón sé ekki hár kostnaður fyrir bókina, segir Andrea Kristín Jónsdóttir sveitarstjóri: „Manni verður svarafátt. Það er misjafnt hver bókin er. Það er náttúrulega gríðarleg vinna sem liggur í svona bók, mikil vinna og mikið verk sem hefur veirð unnið, þú ert náttúrulega að tala um 21 milljón sem er heildarkostnaður áður en sölutekjur fara að koma á móti þannig að kostnaður er lægri í raun. Miðað við vinnu og framlag þá tel ég þetta ekki háan kostnað þannig lagað séð fyrir vinnuna, en þegar þú ert að tala um 21 milljón þá fer það bara eftir samhenginu sem þú setur það í, hvort þetta er stór tala eða lítil tala.“

Jón Jónsson þjóðfræðingur var ritstjóri verksins í nokkur ár. Hann situr nú í sveitastjórn Strandabyggðar. Andrea bendir á að Jón hafi vikið af fundum þegar rætt er um verkið.