Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Býflugnabændur hafa fengið bætur

09.09.2014 - 14:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Býflugnabændur á Íslandi hafa að mestu leyti fengið bætt það fjártjón sem þeir urðu fyrir í sumar þegar milljón býflugur drápust á flugvelli í Finnlandi. Formaður Býflugnaræktendafélagsins segir að sumarið hafi verið afleitt, sjálfur hafi hann aðeins fengið sexíu og fimm kíló hunangs.

Býflugnaræktarfélag Íslands keypti um tvær milljónir býflugna frá Álandseyjum í júní en um helmingur þeirra drapst þegar býflugnabúin gleymdust á flugvelli í Finnlandi.

Egill Rafn Sigurgeirsson, formaður Býflugnaræktarfélagsins, sagði í fréttum RÚV í sumar að tjónið hlypi á milljónum. Núna hefur DHL, sem sá um að flytja býflugurnar til landsins, boðið bætur fyrir búin sem drápust, ókeypis flutning á sama fjölda flugna næsta sumar og flugmiða fyrir forráðamenn félagsins til að sækja þau býflugnabú. Egill vill ekki segja hve háar bæturnar eru. „Það dugir okkur að hluta til því við þurfum náttúrulega að greiða fyrir þessi bú sem við keyptum úti sem við misstum.“

Afleit uppskera

Egill segir að rigningarsumarið í ár, líkt og í fyrra, hafi verið afleitt til býflugnaræktunar og hunangsuppskeru. „Þar af leiðandi geta býflugurnar ekki flogið. Blómin gefa ekkert frá sér í rigningu og blýflugurnar hafa vit á því. En menn hafa þó fengið einhverja tugi kílóa. Sjálfur fékk ég 65 kíló,“ segir Egill. Hann er með um þrjátíu bú. Dæmi séu um að menn hafi fengið um hundrað kg af hunangi.