Búvörusamningar festi einokun MS í sessi

20.02.2016 - 19:51
Mynd: RÚV / RÚV
Einokun Mjólkursamsölunnar er fest í sessi í nýjum búvörusamningum að mati framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Formaður Félags kúabænda segir engar líkur á því að MS geti misnotað markaðsráðandi stöðu.

Búvörusamningar voru undirritaðir í gær. Framlög ríkisins til landbúnaðar hækka um tæpan milljarð króna á næsta ári, verða tæpir fjórtán milljarðar en lækka á næstu árum.

Ósætti innan stjórnarflokkanna

Afar skiptar skoðanir virðast vera innan stjórnarflokkanna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks segist ekki ætla að samþykkja þá. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir komið nóg af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur. Framkvæmdastjóri félags atvinnurekenda segir ljóst að það eigi að viðhalda einokun á mjólkurmarkaði. 

Óljóst hvernig samningar komi neytendum til góða

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir samtökin ósátt við þann miklu stuðning sem landbúnaðarkerfið búi við. Samningarnir séu of almennt orðaðir og það sé með öllu óljóst hvernig almenningurinn muni njóta góðs af þeim. „Það sem að truflar þetta allt saman er að stuðningur við það sem við viljum kalla almennum orðum verksmiðjuframleiðslu og er flokkað sem landbúnaðarvara. Ef að yrði dregið úr þeim gífurlega stuðningi sem sá hluti landbúnaðarframleiðslunnar býr við þá myndi málið horfa allt öðruvísi við. Það er ekkert í þessu, hvorki í samningnum sem slíkum eða þeim kynningum sem við höfum fengið sem bendir til þess að það sé nein strúktúrbreyting á stuðningskerfinu sem slíku með þeim hætti að hún komi neytendum í landinu til góða,“ segir Andrés. 

Viðhalda einokun á mjólkurmarkaði

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir ljóst að það eigi að viðhalda einokun á mjólkurmarkaði. „Það er verið að festa einokun Mjólkursamsölunnar og undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum í sessi. Það kann ekki góðri lukku að stýra til framtíðar. Það er í rauninni verið að setja ákveðið eftirlit með verðlagningu Mjólkursamsölunnar á hrámjólk til sinna keppinauta, sem er ágætt til skamms tíma litið, en til lengri tíma er verið að hunsa öll tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að það eigi að afnema þessa undanþágu frá samkeppnislögunum og jafnvel að brjóta mjólkursamsöluna upp, þetta er afskaplega óheilbrigt ástand á þessum markaði og búið að setja það núna í samning til tíu ára að það eigi að viðhalda því.“

„Hefur allar forsendur til þess að standast samkeppni“

Ólafur segir margt gott í samningunum. „Það er margt gott í þessum samningum varðandi breytingarnar á stuðningnum við bændur. Hins vegar eru þetta áfram alveg óskaplega miklir peningar, það er ekki verið að draga úr beinum stuðningi skattgreiðenda við landbúnaðinn að neinu ráði og við höldum líka áfram að styðja við hann vegna alltof háu matarverði vegna tollverndarinnar. Það hefði að sjálfsögðu átt að draga úr tollverndinni og efla samkeppnina við innlendan landbúnað. Þannig hefði verið stuðlað að hagræðingu og samkeppnishæfni landbúnaðins efld af því að hann hefur allar forsendur til þess að standast samkeppni.“

MS geti ekki misnotað markaðsráðandi stöðu

Sigurður Loftsson, formaður Félags kúabænda, segir þetta tímamótasamninga sem styrki stöðu bænda og hann tekur ekki undir að það sé verið að festa einokun í sessi. „Það eru sett sterk og ákveðin tekjumörk á fyrirtækið á markaðnum og öll verðlagning sem í kringum þetta er þarf að staðfestast af opinberum aðila þannig að líkurnar á því að fyrirtækið geti misnotað sína markaðsráðandi stöðu eins og það er kallað, hún er í rauninni engin.“

Ríkar kvaðir á Mjólkursamsölunni

Sigurður segir ríkar kvaðir lagðar á hendur þessa stóra aðila á markaðnum. „Í fyrsta lagi að safna mjólk um allt land fyrir sama verð hjá bændum þannig að staða þeirra er tryggð gagnvart markaðnum að möguleikar þeirra eru allir samir og jafnir. Í öðru lagi eru kvaðir um það að fyrirtækinu ber að dreifa mjólkurvörum um allt land fyrir sama verð, hvert sem er á landinu og kannski ekki síst að það eru kvöð á fyrirtækinu um að afhenda mjólk eða mjólkurafurðir til frekari vinnslu til annarra vinnslufyrirtækja og í okkar huga er þá verið að tryggja þar mjög ákveðið samkeppni inn á innanlandsmarkaðnum hvað það varðar.“ 

 

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi