Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Burtu með fordóma - „Vertu næs“

19.03.2015 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Rauði krossinn fór af stað með átakið „Vertu næs" í dag. Átakinu er ætlað að draga úr fordómum gagnvart innflytjendum hér á landi sem hafa farið vaxandi. „Það er eitthvað í kerfinu sem er að klikka," segir Þórunn Lárusdóttir verkefnastjóri átaksins.

Á fjögurra ára fresti kemur út skýrslan „Hvar þrengir að?" á vegum Rauða krossins. Skýrslan fjallar um þá sem standa hvað verst í samfélaginu og í nýjustu skýrslunni, sem kom út árið 2014, kom í ljós að verulega hallaði á innflytjendur hér á landi.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að meirihluti landsmanna telur að fordómar fari vaxandi á Íslandi. „Rauði krossinn hefur áhyggjur af þessu og ákveður að gera eitthvað í málinu. Við höfum legið í rannsóknum og skoðað hver staðan er og kortlagt hvað er búið að gera,“ segir Þórunn og bætir við að rannsóknirnar hafi sýnt að mismunun og fordómar séu staðreynd hér á landi.

Þórunn telur Ísland þurfa að læra af reynslu annarra landa, til dæmis Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar. „Það eru mikil mistök að hugsa með sér að einhver vandi sem fylgir innflytjendum lagist með tilkomu annarrar kynslóðar. Það er ekki rétt og skapar miklu meiri vandamál heldur en annað.“

„Við þurfum að opna fyrir umræðu á málefnalegum grundvelli um fjölmenningarsamfélagið sem við búum í. Tíu prósent þjóðarinnar er af erlendu bergi brotinn, þess vegna verðum við að ræða þetta, sjá hvað þarf að gera og hvernig þarf að gera það,“ segir Þórunn.

Úr varð átakið „Vertu næs" sem vekur fólk til þess að líta í eigin barm. „Átakið hvetur fólk til þess að koma fram við hvert annað af virðingu, sama hvaðan það kemur, hvaða litaraft það ber og hverrar trúar það er. Rauði krossinn telur það vera stórt skref. Þetta er bara spurning um að hvetja fólk til þess að skoða sinn hug og athuga hvort maður geti gert betur í samskiptum við annað fólk.“

Nánari upplýsingar um átakið má sjá á vefsíðu þess, vertunaes.is, en þar er meðal annars hægt að taka prófið „Ertu með kynþáttafordóma?“

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV