Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Búmenn komnir á réttan kjöl

29.06.2017 - 08:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Staða húsnæðissamvinnufélagsins Búmanna hefur stórbatnað frá því að félagið rambaði á barmi gjaldþrots árið 2015. Félagsmenn búa við mun meira húsnæðisöryggi nú en þeir hefðu staðið frammi fyrir mun hærri leigu og jafnvel átt hættu á að hrekjast úr húsnæði sínu ef Búmenn hefðu farið á hausinn. Þetta segir Gunnar Kristinsson, formaður félagsins, í samtali við fréttastofu. 

Í tilkynningu frá Búmönnum segir að sala á búseturétti hafi alls staðar gengið vel og eignir sem fara í sölu seljist jafnóðum. Áður seldist búseturéttur nánast eingöngu í  Reykjavík en nýlega hafa íbúðir selst víðar, segir Gunnar, og nefnir Reykjanesbæ, Akranes og Hveragerði sem dæmi. 

Skortur á markaði hefur hjálpað

„Það sem hefur gerst er að við erum að byggja undir sjóðinn okkar og þess vegna höfum við verið að selja íbúðir úr félaginu, eins og í Hveragerði sem var erfiður baggi á Búmönnum,“ segir hann. „Skortur á húsnæðismarkaði hefur líka hjálpað okkur, það er ekki hægt að horfa fram hjá því.“

Þá hafi atvinnumöguleikar á Suðurnesjum gjörbreyst. „Þangað flykkist fólk í vinnu og við höfum getað útvegað því húsnæði,“ segir Gunnar.

Hann lýsir tóninum á aðalfundi félagsins á Grand hóteli fyrr í mánuðinum sem léttum og bjartsýnum. „Ég skil að á sínum tíma hafi fólk verið óánægt en þetta er gjörbreytt. Maður finnur það meðal félagsmanna að traust á félaginu hefur aukist. Við getum horft til framtíðar með félagið, unnið að stefnumótun og skoðað hvernig félagið getur orðið sjálfbært. Við erum í raun að byggja upp nýtt félag á gömlum grunni.“

Vandræði Búmanna mátti meðal annars rekja til íbúða sem byggðar voru á Suðurnesjum og Suðurlandi en seldust ekki, sem og þess að margir höfðu selt búseturétt sinn. Félagið var skuldbundið til að kaupa hann til baka, því eftirspurnin var lítil sem engin. Kaupskylda félagsins var afnumin tímabundið til að bregðast við slæmri stöðu Búmanna og Íbúðalánasjóður afskrifaði hálfan milljarð króna af skuldum félagsins, auk þess sem afborganir af 63 eignum voru frystar. 

Félagsmenn Búmanna eru um 1.500, íbúðirnar 540 og í þeim flestum búa búseturéttarhafar.