Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Búlgaría og Rúmenía í Schengen

08.06.2011 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Búlgaría og Rúmenía hafa uppfyllt skilyrði Schengen-samstarfsins að mati Evrópuþingsins sem greiddi atkvæði um málið í dag.

Búlgaría og Rúmenía gengu í Evrópusambandið árið 2007 en hafa hingað til ekki verið meðlimir í Schengen-samstarfinu sem felur meðal annars í sér að íbúar geta ferðast án vegabréfs milli Schengen-ríkjanna, þar á meðal til Íslands.


Framkvæmdastjórn ESB skilaði af sér skýrslu um ríkin tvö fyrr á árinu sem var rædd á Evrópuþinginu í dag. Nokkrir þingmenn, einkum frá flokkum sem styðja ekki ESB, lýstu andstöðu sinni við tillöguna og sögðu að innganga Búlgaríu og Rúmeníu fæli í sér aukningu skipulagðra glæpa í öðrum Evrópuríkjum.


Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna tók hins vegar ekki undir gagnrýnina og greiddi atkvæði með því að löndin tvö yrðu aðilar að Schengen.


Í yfirlýsingu að lokinni atkvæðagreiðslu kom fram að ekki mætti láta íbúa landanna gjalda fyrir ósanngjarna umræðu og að þeir ættu sama rétt á að tilheyra Evrópu og aðrir. Jafnframt var samþykkt að fylgjast vel með þeim ráðstöfunum sem Búlgaría, Tyrkland og Grikkland hafa gripið til vegna aukins straums innflytjenda.


Ráðherraráðið tekur endanlega ákvörðun í málinu, en ekki er búist við að það verði fyrr en í haust.