Búist við tillögu um slit aðildarviðræðna

19.02.2014 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Búist er við að tillaga um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið verði lögð fram á Alþingi í næstu viku, en engin ákvörðun hefur þó enn verið tekin um það. Skýrsla Hagfræðistofnunar um viðræðurnar og stöðu ESB verða á Alþingi í dag og á morgun.

Talsmenn flokkanna á Alþingi verða með framsögu í umræðunni sem hefst í eftirmiðdaginn, en á morgun fá allir þingmenn tækifæri til að tjá sig um Evrópumálin - aðildarviðræðurnar og hvaða skref ætti að taka í framhaldinu.

Það skref sem helst hefur verið rætt um innan stjórnarflokkanna er að leggja fram þingsályktunartillögu um að slíta aðildarviðræðunum; víðtækur stuðningur er við það innan þingflokka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur engin ákvörðun hins vegar verið tekin um slíka tillögu; rætt er um að taka þessa umræðu í dag og á morgun og meta stöðuna í framhaldi af því. Ekki er heldur talið útilokað að slík tillaga hljóði ekki upp á formleg slit viðræðna við Evrópusambandið, heldur að þær verði settar í frost ef svo má segja, til lengri tíma; hvað sem öðru líður er talið nauðsynlegt að senda skýr skilaboð til forsvarsmanna Evrópusambandsins um fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda.