Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Búist við hitafundi hjá samgöngunefnd á morgun

06.02.2019 - 22:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Fundur hefur verið boðaður í umhverfis-og samgöngunefnd i fyrramálið en nefndin hefur verið nánast óstarfhæf vegna ósættis nokkurra fulltrúa minnihlutans um formann nefndarinnar, Bergþór Ólason, þingmann Miðflokksins. Jón Gunnarsson segir það af og frá að búið sé að ákveða að hann verði formaður nefndarinnar.

Fréttastofa ræddi í kvöld við nokkra nefndarmenn en upp úr sauð á síðasta fundi nefndarinnar þegar Bergþór sneri aftur til þingstarfa eftir leyfi vegna Klausturmálsins og settist í stól nefndarformanns.

Minnihlutinn og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lögðu til að Bergþór myndi víkja en meirihlutinn taldi slíka tillögu ekki tæka og var henni því vísað frá við litla hrifningu. 

Og enn hefur ekkert þokast í samkomulagsátt. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að minnihlutinn ætli að bjóða fram Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar, sem formann nefndarinnar en til þess þurfi hann stuðning meirihlutans „Ég held að meirihlutinn hljóti að vera með eitthvað plan en það getur auðvitað hver sem er úr Miðflokknum fært sig yfir og tekið þessa formennsku til að hann missi ekki forystu sína í nefndinni.“  Þetta snúist því ekki um flokkslínur heldur ásýnd nefndarinnar, að gestir nefndarinnar þurfi ekki að mæta einum af Klausturmönnunum.  

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir í færslu á Facebook í kvöld að meirihlutinn ætli að refsa stjórnarandstöðunni fyrir gjörðir Miðflokksmanna með því að gera Jón Gunnarsson að formanni nefndarinnar.  „Stjórnarmeirihlutinn hefur ekki þorað að taka afstöðu í málinu í allan þennan tíma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minnihlutans til þess að finna ásættanlega lausn í málinu,“ skrifar Þórhildur.

En fulltrúar meirihlutans segja að þetta mál sé ekkert á þeirra könnu. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist í samtali við fréttastofu ekkert ætla að skipta sér af þessu. Boltinn sé hjá minnihlutanum í ljósi samkomulags á Alþingi um formennsku í nefndum. „Minnihlutinn verður bara að ræða hvernig þeir vilja hátta sínum málum.“

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að menn hafi verið að ræða alla möguleika þvers og kruss en hún hafi engan grun um hvað muni gerast á fundinum á morgun. Þ

Jón Gunnarsson, 1. varaformaður nefndarinnar, segir ekkert liggja fyrir hver verði formaður nefndarinnar.  „Ég hef lagt áherslu á að þetta er mál minnihlutans. Ég lít svo á að samkomulag milli stjórnarflokkanna og minnihlutans um skipan í nefndir sé í gildi en ef minnihlutinn getur ekki komið sér saman um þetta þá þarf að grípa inn í það með einhverjum ráðum. “ Nefndin þurfi að endurskipuleggja sig eftir þessar uppákomur.  „Ætli við sjáum ekki til hvernig þetta verður í fyrramálið.“

Ekki náðist í Bergþór Ólason. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV