Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Búið að opna veginn við Núpsvötn

27.12.2018 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Búið er að opna fyrir umferð á Suðurlandsvegi um brúna yfir Núpsvötn. Toyota Land Cruiser fór fram af brúnni á tíunda tímanum í morgun með þeim afleiðingum að þrír létust og fjórir slösuðust alvarlega. Lítilsháttar tafir verða eitthvað áfram vegna vinnu starfsmanna Vegagerðarinnar við viðgerðir á handriði.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn á vettvangi sé lokið. Þó sé ekki komið á hreint hvað olli slysinu. Búið sé að hífa bílinn af vettvangi og áframhaldandi rannsókn taki nú við. Hátt í 30 björgunarmenn komu á vettvang eftir að slysið varð í morgun og var kallað út sjúkralið víðsvegar að af Suðurlandi. Þeim sem tóku þátt í aðgerðunum gefst kostur á að fá áfallahjálp.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi er staðfest að þrír létust í slysinu. Allt erlendir ríkisborgarar, tveir fullorðnir og eitt ungt barn. Fjórir aðrir, einnig erlendir ríkisborgarar, voru fluttir með þyrlum til aðhlynningar á sjúkrahús til Reykjavíkur, tveir fullorðnir og tvö börn á aldrinum 7 til 9 ára. Bæði sendiráð Bretlands og Indlands eru að safna upplýsingum um farþega bílsins sem lenti í umferðarslysi á Skeiðarársandi í morgun.