Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Búið að opna brúna yfir Eldvatn

09.08.2018 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Björn Malmquist - RÚV
Brúin yfir Eldvatn sem lokað var í Skaftárhlaupinu var opnuð rétt fyrir hádegi. Athugað var með mælingum hvort hún hafi sigið eða laskast í hlaupinu. Svo reyndist ekki vera.

Áfram verður umferð takmörkuð við fimm tonna heildarþyngd og 230 sentimetra breidd. Greið umferð er um kaflann á þjóðvegi eitt í Eldhrauni sem loka þurfti eftir að flæddi yfir hann. Starfsmenn Vegagerðarinnar lagfæra nú kanta vegarins en það veldur ekki töfum á umferð. 

Grenlækur og Tungulækur í Landbroti eru nú óðum að verða tærari eftir að hlaupvatn úr Eldhrauni rann út í þá. Þórunn Júlíusdóttir bóndi í Seglbúðum í Landbroti segir mikið farið nú þegar úr Grenlæk. Seglbúðir eru í Veiðifélagi Grenlækjar. Veiði hefst þar um mánaðamótin. Þórunn telur að Skaftárhlaupið eigi ekki eftir að hafa áhrif á veiðina í haust. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV