Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Búið að loka sundlauginni á Laugarvatni

07.06.2017 - 16:22
Mynd: RÚV / RÚV
Sundlauginni og íþróttahúsinu á Laugarvatni hefur verið lokað þar sem ákveðið hefur verið að hætta þar íþróttakennslu á vegum Háskóla Íslands. Oddviti Bláskógabyggðar segir brýnt að ríkið aðstoði sveitarfélagið við rekstur mannvirkjanna.

Háskóli Íslands hætti um mánaðamótin kennslu í íþróttafræðum við Laugarvatn og vill losna við húsnæði skólans, sem er sundlaugin, íþróttasalur, lyftingasalur og íþróttavellir. Sundlauginni og íþróttahúsið hefur því verið lokað og óvíst er hvort og þá hvenær verður opnað á ný. 

„Við viljum að þessi mannvirki verði í rekstri, því þetta skiptir samfélagið á Laugarvatni og Bláskógabyggð gríðarlega miklu máli,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar. „Hver kemur til með að reka það, það er ekki komið í ljós, en sveitarfélagið á sem sagt í viðræðum við ríkið um það hver og með hvaða hætti á að reka þessar fasteignir,“ segir Helgi.

Hann bendir á að það skipti samfélagið miklu að hafa sundlaugina og íþróttahúsið. „Þetta skiptir skólann á Laugarvatni gríðarlega miklu máli, menntaskólann, grunnskólann, leikskólann, íþróttafélagið, ungmennafélagið á staðnum.  Laugarvatnsþorpið byggist upp í kringum ríkisskólana. Ríkið getur ekki bara farið einn daginn og bara lokað. Og ríkið getur ekki annað en sýnt þá ábyrgð að þessar eignir verði í rekstri áfram,“ segir Helgi.