Búið að leysa vanda 3.000 farþega

14.04.2019 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Búið er að leysa úr vanda um 3.000 farþega Icelandair sem komust ekki frá Íslandi vegna óveðursins sem gekk yfir landið í gær og í fyrradag. Enn á eftir að leysa vanda um 600 manns.

Nær öllum ferðum Icelandair var aflýst seinni parts dags í gær og í fyrradag vegna óveðurs. Það olli því að fjöldi fólks var strandaglópar hér á landi og komst ekki erlendis.

„Á þessum eina og hálfa sólarhring sem þetta ástand hefur varað þá erum við búin að leysa málin fyrir um 3.000 farþega,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Þá er ég bara að tala um þá sem áttu flug frá Keflavík. Það eru ennþá um það bil 600 manns eftir sem við erum bara á fullu að vinna í að leysa málin fyrir.“

Icelandair bætti við átta ferðum til Bandaríkjanna í gær og í dag til þess að koma fólki utan sem hafði setið eftir vegna veðursins auk þriggja ferða til Evrópu. Flestir farþega sem urðu fyrir áhrifum af þessu voru á leið vestur um haf, enda var ferðum aflýst seinni partinn báða dagana þegar Icelandair flýgur til Bandaríkjanna og Kanada.

Vegna þessa vanda fór Icelandair á leit við leigusala sinn sem ætlaði að leigja Icelandair vél fyrir sumarið, að fá vélina afhenda strax. Leiguvélin er nú á leið til landsins og flytur um 260 farþega til Orlando síðdegis í dag. „Það eru mestmegnis Íslendingar á leið í páskafrí á Flórída,“ segir Ásdís Ýr.

Þotan sem um ræðir er að gerðinni Boeing 767 og er breiðþota. „Við náðum að fá hana fyrr inn til þess að fara í þetta verkefni,“ segir Ásdís Ýr.

Mikil örtröð

Nokkur örtröð myndaðist í Leifsstöð í morgun þegar þúsundir ferðalanga fóru um flugstöðina á svipuðum tíma. Hátt í þrjátíu brottfarir voru skipulagðar frá því klukkan sjö í morgun og til hádegis. Lang flestar ferðir voru áætlaðar á hálftíma bili á áttunda tímanum í morgun.

Einhverjar seinkanir urðu vegna þessa og ekki bætti úr skák þegar tæknilegir örðugleikar urðu í töskuafgreiðslu á vellinum. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll, segir að þetta hafi gengið afskaplega vel fyrir sig. Starfsfólk hafi verið viðbúið miklum kúf í morgun.

Um tíu leytið var allt með kyrrum kjörum í Leifsstöð og nær engar raðir við öryggishliðin og engar raðir við innritunarborðin eins og hafði verið í snemma í morgun. Þegar mest lét náði röðin við öryggishliðin fram á gang og niður í innritunarsalinn á hæðinni fyrir neðan.