Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Buhari nær endurkjöri í Nígeríu

27.02.2019 - 04:28
Mynd með færslu
Buhari ræðir við fréttamenn á kjördag. Mynd:
Mikill fjöldi kom saman fyrir utan kosningaskrifstofu Muhammadu Buhari í Abuja, höfuðborg Nígeríu, þegar kjörstjórn greindi frá því í gærkvöld að hann hafi náð endurkjöri sem forseti landsins. Hann hlaut alls um 56 prósent atkvæða í kosningunum á laugardag. Helsti andstæðingur hans, Atiku Abubakar, hlaut um 41 prósent.

Kosningarnar áttu að fara fram viku fyrr, en var frestað af óháðri kjörstjórn landsins við mikla óánægju bæði frambjóðenda og kjósenda. Ásakanir gengu á víxl um svindl og samsæriog urðu mikil átök í kringum kosningarnar. Langar biðraðir voru enn við marga af 120 þúsund kjörstöðum landsins þegar kosningunum átti að vera formlega lokið. Mörgum sögum fór af meintu kosningasvindli og tilraunum til þess. AFP fréttastofan hefur eftir fulltrúum nokkurra félagasamtaka, sem höfðu eftirlit með kosningunum, að minnst sextán manns í átta ríkjum hafi látið lífið í átökum á kjördag.

Kosningaeftirlitsmenn og hermenn hafa greint frá því að kveikt hafi verið í kjörkössum á allmörgum stöðum og dæmi eru um að hermenn hafi skotið á fólk, sem þeir grunuðu um græsku á kjörstað. Einnig eru sögð fjölmörg dæmi þess að kjósendur hafi falboðið atkvæði sitt.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV