Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Buðu fréttastjóra á fund í London í aðdraganda þáttar

13.11.2019 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Fréttamenn Kveiks sem unnu umfjöllun um mál Samherja í Namibíu óskuðu fyrst eftir viðtali við forstjóra Samherja 15. október og fylgdu henni tíu dögum síðar eftir með tveggja síðna viðtalsbeiðni þar sem efnisatriði málsins voru rakin. Á miðvikudag í síðustu viku bauð Samherji fréttastjóra RÚV til fundar í Lundúnum með norskum almannatengli. Þar átti að veita bakgrunnsupplýsingar sem ekki hefði verið hægt að vísa til í fréttaflutningi. Því boði var hafnað en viðtalsbeiðnir ítrekaðar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Kveiks sem Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV og ritstjóri Kveiks, undirritar og í samskiptum Kveiks og Samherja sem birt eru á vef RÚV. Hún segir að bréf og tölvupóstar staðfesti að Kveikur hafi ítrekað leitað svara og viðbragða hjá Samherja auk þess að veita ítarlegar upplýsingar um umfjöllunarefnið. Vinnubrögðin séu því fyllilega í samræmi við lögbundnar skyldur og reglur sem hvíla á blaða- og fréttamönnum.

Rakel segir að fréttamenn Kveiks hafi fyrst sent Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, viðtalsbeiðni þann 15. október. Í þeirri beiðni sagði að umfjöllunarefnið væri þróunaraðstoð Íslendinga í sjávarútvegi og aukin umsvif íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja erlendis. Þeirri viðtalsbeiðni var hafnað samdægurs og sagt að Þorsteinn sæi ekki ástæðu til að fara í slíkt viðtal.

Önnur viðtalsbeiðnin var send tíu dögum síðar, rúmlega hálfum mánuði áður en þátturinn var sendur út. Þar var vísað til tölvupósta, mynda, reikninga og greiðslukvittana sem sýni fram á „að félög í eigu Samherja hafi greitt aðilum tengdum sjávarútvegsráðherra Namibíu umtalsverðar fjárhæðir fyrir aðgengi að fiskveiðikvóta í landinu“. Í yfirlýsingu Rakelar segir að gefinn hafi verið rúmur tími til andsvara í samræmi við vinnureglur RÚV en að ekkert svar hafi borist.

Mynd með færslu
 Mynd: Google
London.

Buðu bakgrunnsupplýsingar

Á miðvikudag í síðustu viku, þann 6. nóvember, fékk fréttastjóri bréf frá forstjóra Samherja. Þar segir að yfirlýsingin sé tekin alvarlega. Þorsteinn Már segir að ekki sé um staðreyndir að ræða heldur ásakanir fyrrverandi starfsmanns. „Við viljum gjarnan bjóða þér, sem fréttastjóra og ábyrgðarmanns Kveiks, til fundar í London til að ræða málið og veita bakgrunnsupplýsingar sem við teljum mikilvægar,“ segir í bréfinu. Þar vilji Samherja menn ræða málið opinskátt og upplýsa eins vel og hægt sé. Jafnframt er vísaði í vinnureglur fréttastofu RÚV um að fréttamenn verði að fullvissa sig um að upplýsingar þeirra séu réttar og leita til fleiri en eins aðila til að sannreyna þær. Þar er jafnframt tekið fram að Håkon Borud, meðeigandi hjá First House ráðgjafarfyrirtækinu verði tengiliður og ráðgjafi Samherja í viðræðum við RÚV.

Fréttastjóri RÚV svaraði því til að upplýsingarnar byggðu á umfangsmikilli rannsóknarvinnu og viðtölum auk gagna sem Kveik hafi verið látið í té. Því sé ekki ástæða til fundar eins og þann sem Samherji bauð því umfjöllunin standi óhögguð á grundvelli rannsóknarvinnu óháð viðtölum við fyrrverandi starfsmann Samherja, Jóhannes Stefánsson. Fréttastjóri sagði í síðari samskiptum að það væri „fráleitt að halda því fram að fundarboð til London á bak við luktar dyr teljist eðlilegt eða gegnsætt ferli sem íslenskur fjölmiðill geti fallist á að taka þátt í“.

Í framhaldi af þessu ítrekaði Kveikur viðtalsbeiðnir og kvaðst tilbúinn til fundar en sá fundur yrði að vera „opinn og gegnsær og ekki háður skilyrðum frá Samherja“. Samherji bauð að flytja fundinn til Íslands en ítrekaði að það sem þar kæmi fram kæmi ekki fyrir sjónir almennings. Þar sagði að ástæðan fyrir Lundúnum sem fundarstað væri aðeins sú að Samherji hefði talið hagræði að hafa fundinn í þeirri borg þar sem fyrirtækið ætti líka í viðræðum við Al Jazeera sem undirbýr umfjöllun um málið.