Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Búðin í Grímsey lokar

18.09.2015 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Búðinni í Grímsey verður lokað um miðjan október. Þá verður engin verslun í eynni. Það verður í fyrsta skipti í tæp hundrað ár sem verslun er ekki rekin í Grímsey.

Anna María Sigvaldadóttir hefur rekið Búðina í Grímsey í níu ár. Nú hefur hún ákveðið að hætta rekstri Búðarinnar og hún segist ekki vita til þess að neinn hafi hug á að taka við. Hún segir að það sé ekki einfalt að reka búð í svona fámennu samfélagi.

„Þetta er ekki beint auðveldur rekstur með ekki fleira fólki eins og er í Grímsey“ segir Anna María. Verslun hefur verið í eynni í tæp hundrað ár eða frá árinu 1918 þegar að Húsvískir kaupmenn opnuð búð. Fyrir þann tíma var pöntunarkerfi. Anna María segist reikna með að ef engin búð verður í eynni taki pöntunarkerfið við á ný. 

„það væri kannski hægt að senda pöntun á mánudegi sem kæmi með ferjunni á miðvikudegi.“

Hún segir þetta auðvitað ekki besta kostinn í stöðunni. 

„Það er ekkert á öllum stöðum á landinu á litlum kjörnum þar sem að eru búðir, en við erum auðvitað dálítið ver sett þar sem að við erum á eyju.“

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV