Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bubbi yrkir um áföll í nýrri bók

Mynd: RÚV / RÚV

Bubbi yrkir um áföll í nýrri bók

25.09.2018 - 17:00

Höfundar

Bubbi Morthens hefur gefið út nýja ljóðabók. Rof heitir hún og er lokabindið í þríleik, sem hófst með ljóðabókinni Öskraðu gat á myrkrið. „Rof fjallar um ofbeldi sem ég varð fyrir en um leið önnur áföll sem ég varð fyrir sem barn og unglingur,“ segir Bubbi.

Bubbi segir að ljóðabókin Rof sé að einhverju leyti áfallasaga. „Þetta er eitthvað sem ég ákvað að gera og vinna úr. Upprunalega ætlaði ég að skrifa ævisögu mína, ég var byrjaður á því en í miðjum klíðum varð hún að Öskraðu gat á myrkrið. Þá uppgötvaði ég formið, þetta er formið sem ég hef leitað að. Einhvers konar prósi, fríljóð sem að tóku svona yfir. Ég fann einhvern veginn mig í þessu formi. Þarna fann ég göngustíginn minn.“

Gríðarlegt miskunnarleysi

Rof er þriðja ljóðabók Bubba á jafnmörgum árum. „Þetta er þríleikur, það má orða það þannig.“ Ljóðin í fyrstu bókinni, Öskraðu gat á myrkrið, voru römmuð inn af veru hans á Vogi. Í Hreistri, annarri ljóðabókinni, fjallaði hann um árin fram að því þegar hljómsveitin The Stranglers kom til Íslands. „Hún endar á því. Stranglers eru að koma yfir hafið ég er að klára verkið og á leið í bæinn. Sem þýðir í rauninni að þá er tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens að verða til.“

Bubbi segist vera nálgast þann stað þar sem hann kemst að því hver hann er áður en hann deyr. Hann segir það útheimta mikla vinnu að verða sáttur við sjálfan sig. „Það eru ekki margir sem ná því. Það er gríðarlegt miskunnarleysi sem þú þarf að sýna sjálfum þér til þess að öðlast sjálfskærleika og finna kjarnann í þér. Það þarf mikla vinnu og maður gerir það ekki ótilneyddur.“

Dauðinn er subbulegur og miskunnarlaus

Bubbi neyddist til að hætta við tónleika á Menningarnótt í sumar eftir að hafa verið lagður inn á spítala. Í ljós kom að slagæð hafði rifnað og munaði litlu að verr færi.

„Ég samdi eitthvað meðan ég var vakandi inni á spítala,“ segir Bubbi. Hann segist ekki hafa hugsað um að hann væri að deyja meðan hann lá þar innan um blóðug handklæði, „en það kom í hausinn á mér að þetta væri dálítið subbulegt. Maður ímyndar sér alltaf að maður deyi í svefni, á baki eða á árbakkanum. Þetta er hin fullkomna blekking. Það er það fallega við dauðann. Hann kemur alltaf þegar þú átt ekki von á honum. Hann er oftar en ekki subbulegur og hann er tuddalegur. Miskunnarlaus.“

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Slagæð rifnaði hjá Bubba Morthens

Menningarefni

Bubbi glímir við kvíða fyrir tónleika

Tónlist

Bubbi skorar sjálfan sig á hólm

Bókmenntir

Ljóðabók Bubba — „ofurskammtur af kvöl“