Þótt Bubbi Morthens sé nýkominn á heiðurslaun listamanna slær hann ekki slöku við. Þessa dagana er hann ásamt í hljómsveit í stúdíói úti á Granda að taka upp nýtt efni sem kemur út síðar árinu.
„Já, rokk, popp með einhvers konar kryddi og gamaldags,“ segir Bubbi um nýju lögin. „Ef þetta væri matur væri þetta hráfæði vegna þess að þetta er allt spilað, þetta eru alvöru hljóðfæri. Í dag er það ekki lengur sjálfgefið að það séu hljóðfæraleikarar að spila á hljóðfæri, allt tekið upp í alvörunni og í einu, allir grunnar og svo framvegis.“
Bubba til halds og trausts eru Guðmundur Óskar Guðmundsson bassaleikari og hljóðfæraleikarar sem léku undir hans stjórn í leiksýningunni Ellý. Bubbi kann því vel að vinna með tónlistarmönnum af annarri kynslóð.
„Ég er gamall úlfur en málið er að ég er gamall úlfur í hrikalegu formi. Tónlist hefur engin landamæri, hún fer í gegnum hvað sem er, smýgur í gegnum allt. Þar af leiðandi erum við að tala sama tungumál þannig að aldur skiptir engu máli. Galdurinn í sambandi við ferilinn minn er að bera gæfu til að vinna með alls konar fólki og treysta. Þetta snýst alltaf um traust.“
Rætt var við Bubba í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.