Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Búast við hlaupi aðfaranótt laugardags

02.08.2018 - 16:50
Mynd frá síðasta Skaftárhlaupi - Mynd: RÚV / RÚV
Flest bendir til þess að Skaftárhlaup sé hafið undir jökli og brjótist fram aðfaranótt laugardags við jökuljaðarinn. Reiknað er með hlaupið nái hámarki á sunnudag. Tjón upp á hundruð milljóna varð í síðasta Skaftárhlaupi fyrir þremur árum en Esther Hlíðar Jensen, landmótunarfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé búist við jafnstóru hlaupi nú.

„Það eru GPS-mælingar við Skaftárkatlanna sem sýna hvernig íshellan er og hún hefur fallið,“ segir Esther í samtali við fréttastofu eftir fund Veðurstofunnar og Almannavarna. Hún segir að síðasta hlaup hafi verið nokkuð hratt og reikna megi með að þetta verði svipað.

Fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar að ekki sé hægt að útiloka að hlaupið verði fyrr á ferðinni nú. Vænta megi minna hlaups þar sem tæp þrjú ár séu liðin frá síðasta hlaupi en áður hlaupið 2015 varð höfðu liðið fimm ár. „Því er búist við því að rennsli í hlaupinu sem nú er hafið verði minna en í hlaupinu 2015 en það er þó ekki fullvíst vegna þess að hugsanlegt er að hlaup nú brjótist hraðar fram,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Skýringin á Skaftárhlaupi má rekja til jarðhita undir jöklinum sem veldur því að vatn safnast fyrir í kötlum og lónum og þegar þau fyllast hleypur vatnið. „Við búumst ekki við jafn stóru hlaupi og síðast en það kemur með nokkrum látum við Ása og brúin yfir ána stóð tæpt í síðasta hlaupi. Þar getur gengið mikið á en við þjóðveginn er ekki mikil hætta,“ segir Esther.

Hún varar fólk við því vera á ferli við ána vegna gasmengunar. „Það verður fylgst vel með. Við erum með mæli við Sveinstind og þegar hlaupið kemur þangað þá vitum við nokkurn veginn hvað það verður stórt.“

Hægt er að horfa á viðtal sem Jóhann Bjarni Kolbeinsson tók við Esther í spilaranum hér að ofan.

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir mikilvægt að íbúar og allir þeir sem eigi leið um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem geti komið upp og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá.

Tilkynningu Veðurstofunnar má lesa í heild sinni hér að neðan.

 

GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar er farin að lækka(sbr. meðfylgjandi mynd), og rennsli úr lóni við jökulbotn er hafið. Rennsli úr katlinum hófst líklega snemma á þriðjudag 31. júlí og nemur nú á stærðarþrepinu 100 m3/s. Rennslið úr katlinum er vaxandi og vænta má jökulhlaups í Skaftá á næstu dögum. Ef atburðarásin verður með sama hætti og í jökulhlaupinu í október 2015 gæti hlaupið brotist undan jökuljaðrinum aðfaranótt næstkomandi laugardags 4. ágúst og rennslið nærri jökuljaðri náð hámarki snemma á sunnudag. Hlaupið verður um hálfum sólarhring síðar á láglendi við hringveg 1. Ekki er þó unnt að útiloka að hlaupið verði fyrr á ferðinni nú og fylgist náttúruvárvakt Veðurstofunnar með framvindu hlaupsins.

Fyrir hlaupið 2015 höfðu liðið rúm fimm ár frá síðasta hlaupi þar á undan en nú eru liðin tæp þrjú ár frá síðasta hlaupi. Það er heppilegt að því leitinu til að þá má vænta minna hlaups en eftir jafn langt hlé og fyrir hlaupið 2015. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunar Háskólans sýna einnig að nokkru minna vatn er í lóninu nú en var í upphafi hlaups 2015. Því er búist við því að rennsli í hlaupinu sem nú er hafið verði minna en í hlaupinu 2015 en það er þó ekki fullvíst vegna þess að hugsanlegt er að hlaup nú brjótist hraðar fram.

Möguleg vá

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá:

Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.

Dæmi eru um að hlaup frá katlinum hafi komið að hluta til undan Síðujökli, sem mundi þá valda hlaupi í Hverfisfljóti og þá koma fram við brúna á þjóðvegi 1. Fylgst er vel með Hverfisfljóti þótt ekki sé talið líklegt að það gerist.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Bakgrunnur

Upptök hlaupa í Skaftá eru undir tveimur jarðhitakötlum í Vatnajökli. Þegar hleypur úr þeim rennur vatnið fyrst um 40 km undir jöklinum og síðan 20 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli, sem er viðvörunarmælir við Sveinstind. Söfnunarhraði í katlana er nokkuð jafn, því er langur tími á milli flóða jafnan ávísun á stór flóð. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum. Úr hvorum katli hleypur að jafnaði á tveggja ára fresti en hlé milli hlaupa úr eystri katlinum var óvenju langt fyrir hlaupið 2015. Hámarksrennsli í hlaupum úr eystri katlinum hefur mest orðið um 3.000 m3/s. Áin getur vaxið úr eðlilegu rennsli, sem er nú um 100-200 m3/s í 2.000 til 3.000 m3/s á innan við sólarhring. Vatn tekur nokkurn tíma að ná niður að þjóðvegi, en það mun flæða út á hraunið neðan Skálarheiðar. Útbreiðsla þess nær þó ekki hámarki fyrr en nokkru eftir að það tekur að draga úr rennsli við Sveinstind.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV