Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Búast við fúlgum fjár fyrir álfamyndir

Mynd með færslu
 Mynd: The Public Domain Review - Flickr.com

Búast við fúlgum fjár fyrir álfamyndir

28.09.2018 - 06:16

Höfundar

Uppboðshaldararar búast við því að einhverjar þekktustu fölsuðu ljósmyndir sögunnar seljist á um 300 þúsund krónur þegar þær verða boðnar upp í næstu viku. Guardiar greinir frá þessu. Myndirnar fengu marga til að trúa á álfa. Þær eru teknar snemma á síðustu öld af frænkunum Elsie Wright og Frances Griffiths.

Wright var 16 ára þegar myndirnar voru teknar og Griffiths níu ára. Þær bjuggu í Cottingley í Yorkshire héraði á Englandi og tóku af sér myndir þar í nágrenninu í júlí og september árið 1917. Myndefnið vakti verulega athygli, enda stúlkurnar umvafðar vængjuðum blómálfum, sem þar til þá höfðu aðeins verið til í skáldsögum. Stúlkurnar fengu myndavél föður Wright lánaða, teiknuðu álfa á pappír og klipptu út, og stilltu sér svo upp með þeim á meðan hin tók mynd.

Þær sögðu myndirnar sanna tilvist þessara hulduvera, og féllu ansi margir í gildruna. Þeirra þekktastur var án efa Sir Arthur Conan Doyle, höfundur sagnanna um einkaspæjarann Sherlock Holmes. Faðir Wright framkallaði myndirnar og áttaði sig fljótt á því að þær væru falsaðar. Móðir hennar var ekki jafn sannfærð, og sýndi félögum sínum í guðspekifélagi Bradford myndirnar, þar sem einmitt fór fram fyrirlestur um líf álfa. Eftir það fór blómálfasagan á flug. Edward Gardner, einn leiðtoga guðspekifélagsins, fékk ljósmyndasérfræðinginn Harold Snelling til að prenta myndirnar út, og voru þær seldar á fyrirlestrum Gardners.

Árið 1920 komst Conan Doyle á snoðir um tilvist myndanna. Hann var sjálfur mikill áhugamaður um tilvist álfa og huldufólks, og vildi endilega fá að nota myndirnar fyrir tímaritsgrein sem hann átti að skila inn nokkru síðar. 
Gardner fór til fundar við Wright fjölskylduna og færði stúlkunum myndavél svo þær gætu reynt að festa fleiri álfa á filmu. Sumarið 1920 náðu stúlkurnar þremur myndum af sér með álfum til viðbótar. Grein Conan Doyles kom út nokkru síðar og vakti miklar deilur. Vísindamenn og rithöfundar kepptust um að annaðhvort fylkja sér á bak við kenningu höfundar einkaspæjarasagnanna um sannleiksgildi myndanna, eða segja þær augljóslega falsaðar.

Hvað sem því líður verða þessar um aldargömlu álfamyndir seldar hæstbjóðanda í Dominic Winter Auctioneers uppboðshúsinu í Gloucestershire 4. október.