Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búast við allt að 100.000 flóttamönnum 2020

18.12.2019 - 11:51
epaselect epa07886412 Migrants from Afghanistan arrive on a dinghy on the coast of Skala Sikamias, on the island of Lesvos, Greece, 01 October 2019.  EPA-EFE/STRATIS BALASKAS
Afganskir flóttamenn koma að landi á eynni Lesbos. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Stjórnvöld í Grikklandi hafa ítrekað beiðni um aðstoð frá Evrópusambandinu vegna stöðugs straums flóttamanna til landsins. Grikkir búast við að allt að 100.000 flóttamenn komi til landsins frá Tyrklandi á næsta ári.

Ekkert lát virðist vera á straumi flóttamanna og hælisleitenda til Grikklands, en nær daglega koma þangað bátar fullir af fólki og hefur fjöldinn ekki verið meiri síðan Evrópusambandið samdi við Tyrki í mars 2016 um að reyna að hindra för flóttafólks þaðan til Evrópu.

Í september komu meira en 10.500 flóttamenn til Grikklands sem er mesti fjöldi í einum mánuði síðan samkomulagið var undirritað, en undanfarið hálft ár hafa 45.000 flóttamenn komið til landsins frá Tyrklandi.

Flestir eru settir í yfirfullar búðir á eyjunum Samos, Lesbos, Chios, Kos og Leros, þar sem aðstæður og aðbúnaður er afar slæmur. Þaðan er fólk flutt yfir á gríska meginlandið, en flutningar þangað hafa gengið treglega og ekki hafa verið fluttir eins margir og stefnt var að.

Á grísku eyjunum eru nú meira en 40.000 flóttamenn, en alls eru þeir um 90.000 í Grikklandi öllu, sem er meira en samanlagður fjöldi flóttamanna á Ítalíu, Spáni, á Möltu og Kýpur.

Stjórnvöld í Grikklandi áforma á komandi ári að senda fleiri til baka en þeir hafa gert til þessa, en tillögur þeirra um að önnur Evrópusambandsríki taki við flóttamönnum þaðan hafa lítinn hljómgrunn fengið.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV