Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Brýrnar halda - flóðið í rénun

02.10.2015 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín sigurðardóttir - RÚV
Útlit er fyrir að brýrnar við Eldvatn og Kúðafljót standi af sér Skaftárhlaupið, sem nú er í rénun. Vegagerðin reynir nú að beina vatni frá þjóðvegi 1 á kaflanum milli Eldvatns og Kirkjubæjarklausturs. Eldvatnsbrúin var opnuð aftur fyrir umferð um klukkan hálf fjögur.

Almannavarnir funduðu klukkan þrjú í dag um stöðu mála. „Ég held að við séum, hvað vatnsmagnið varðar, að horfa til þess að þetta sé í rénun. Þó það sé gífurlegt magn af vatni að koma niður undan jöklinum ennþá,“ segir Hjálmar Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra

„Mælar sýna að það er á niðurleið upp við Sveinstind. Við skulum átta okkur á því að það eru allmargir kílómetrar þaðan niður á sléttu. Púlsinn er á leiðinni niður og hvort hann nær hámarki, átta, níu eða tíu í kvöld eigum við eftir að sjá.“

Dregið hefur úr rennsli við brýrnar við Kúðafljót og Eldvatn eftir því sem liðið hefur á daginn. Tvísýnt var um stund hvort þær stæðu af sér stærsta Skaftárhlaup síðan mælingar hófust. 

„Það er búið að sjatna verulega og vatnshæð lækkað um tvo til þrjá metra frá því sem mest var milli klukkan tólf og eitt,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni. „Það er því útlit fyrir að brúin muni halda sér.“

Guðmundur segir útlitið einnig gott við aðrar brýr. „Það var spurning um hversu mikið vatn færi um Kúðafljót. En það hefur allt verið vandræðalaust þar.“ 

Þegar mest gekk á í dag brustu varnargarðar við Eldvatn með þeim afleiðingum að álag við Eldvatnsbrúna minnkaði en vatn leitaði þess í stað út í hraunið og í átt að þjóðvegi eitt.

„Vegagerðin er búin að vera hér með gröfu að styrkja litla varnargarða hér við veginn,“ segir Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi. Vatnið safnast upp á vegarkaflanum austan við afleggjarann að Eldvatni og vestan við Kirkjubæjarklaustur. 

„Þetta virðist vera bera árangur. Vatnið hefur minnkað hérna næst veginum. En þetta gerist hægt og það þarf að fylgjast vel með þessu.“