Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brýnt að skilgreina land fyrir vindorkuver

10.01.2019 - 18:52
Mynd:  / 
Við stöndum á þröskuldi mikilla breytinga, segir verkefnastjóri fjórða áfanga rammaáætlunar. Þeir sem vilja virkja vindinn banki á dyrnar og bregðast verði fljótt við og skilgreina hvar vilji er til að setja niður vindmyllur - enginn vilji gera mistök sem bitni á náttúrufegurð landsins.

Viljum ekki spilla náttúrufegurð landsins

Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnastjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar var gestur í Samfélaginu á Rás 1 en verkefnastjórnin og umhverfis- og auðlindaráðuneytið stóðu fyrir fjölmennu málþingi um vindorku í gær. Sveitarfélög eru meðal þeirra sem hafa fundið fyrir miklum áhuga á að virkja vindinn og kallað eftir skýrum leiðbeiningum frá stjórnvöldum. „Gesturinn stendur á tröppunum, hann er búinn að hringja dyrabjöllunni og við erum ekki farin að elda kvöldmatinn, við verðum að drífa á okkur á svuntuna og vinna þessa vinnu, vegna þess að við viljum ekki gera mistök. Við viljum ekki spilla kannski miklvægustu auðlind sem að Ísland á, sem er náttúrufegurðin,“ segir Guðrún.

Þörf á að skilgreina landið með tilliti til vindmylla

Guðrún segir ljóst að tækninni fleygi fram og um leið og vindmyllur verði afkastameiri stækki þær hratt, en þær ná nú um 200 metra hæð á landi. Guðrún telur mikilvægt að skilgreina landsvæði með tilliti til vindmylla, enda hafi þær mikil sjónræn áhrif. Á málþinginu var fjallað um aðferð Skota sem skiptu landinu í þrjá flokka, rauðan þar sem þeir vildu alls ekki hafa vindmyllur, eins og t.d. í þjóðgörðum, gulan flokk þar sem taka þarf sérstakt tillit, til dæmis til staða sem hafa sérstakt verndargildi, og svo grænan flokk, þar sem leyfi er til að setja niður vindmyllu, þó eftir hefðbundið skipulagsferli, þar sem tekið er tillit til umhverfisáhrifa, hljóðmengunar og sjónrænna áhrifa.

Mikilvægt að skýra rammann

Guðrún telur mikilvægt að vinnu við skipulag, með tilliti til vindmylli verði hraðað. „Það gefur framkvæmdaaðilum miklu betri ramma til að horfa á og það einfaldar allt. Frekar en að menn séu látnir setja vinnu í að stinga upp á einhverju sem síðar svo kemur í ljós að, „Æ, nei annars. Eigum við ekki að hafa þetta sem rautt svæði,“ Segjum það fyrir fram.“