Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Brýnt að fjölga hraðamyndavélum

29.08.2017 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Vegagerðin hyggst kaupa fjórar nýjar hraðaeftirlitsmyndavélar til þess að setja upp í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi. Yfirlögregluþjónn á Vesturlandi segir að lítið hafi verið bætt í hraðaeftirlit frá hruni og brýnt sé að fjölga myndavélum. 

Átján hraðaeftirlitsmyndavélar eru á Íslandi, þar af sextán í dreifbýli og tvær á höfuðborgarsvæðinu. Vegagerðin sér um kaup og rekstur búnaðarins en lögreglan vinnur úr upplýsingunum úr myndavélunum.

Vegagerðin hyggst fjölga myndavélum og hafa Ríkiskaup óskað eftir tilboðum í fjórar slíkar. Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar hjá Vegagerðinni, segir að myndavélar verði settar upp í Norðfjarðargöngum og að öllum líkindum á Grindavíkurvegi. „Yfirleitt setjum við þetta bara á köflum þar sem eru mörg slys en svo setjum við alltaf í jarðgöng í forvarnarskyni," segir Auður. 

Mæla með meðalhraðaeftirliti

Samkvæmt nýlegri skýrslu frá verkfræðistofunni Mannviti væri æskilegt að taka upp svokallað meðalhraðaeftirlit hér á landi, en þannig er hægt að mæla meðalhraða á tilteknum vegkafla. Slíkt hefur víða um heim verið notað með góðum árangri og er það talið skilvirkara en punktahraðaeftirlitið sem notað er hér á landi. Samkvæmt skýrslunni hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir fjórtán alvarleg manntjón og sex mannslát í umferðinni með notkun meðalhraðaeftirlits á ákveðnum vegköflum á árunum 2007-2016. 

Auður segir að í útboðsferlinu verði skoðaðir möguleikar á því að kaupa myndavélar sem nota megi til meðalhraðaeftirlits. „Því er haldið opnu, það fer eftir því hvað við fáum hagstæð tilboð," segir hún.

Auðvelt að finna staði fyrir myndavélarnar

Þá hefur Vegagerðin óskað eftir því að í samgönguáætlun til ársins 2021, sem nú er í vinnslu, verði kafli um meðalhraðaeftirlit á þjóðvegum landsins. Slíkar myndavélar yrðu þó einungis settar upp á stöðum þar sem er mikil hætta á slysum. „Okkar vegakerfi er þannig að það eru langir kaflar þar sem er lítið af vegamótum og við yrðum ekki í neinum vandræðum með að finna staði. En það á ekki að setja þetta upp einungis til að safna peningum fyrir ríkið," segir Auður.    

Arðbært að fjölga vélum

Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir að lítið hafi verið bætt í umferðareftirlit eftir hrun. Afar fáar myndavélar hafi verið settar upp á síðustu árum og því vill Ólafur breyta. „Þetta er eitt af því arðbærasta sem samfélagið getur gert, það eru hraðamyndavélar. Það skiptir í raun engu hvað ríkissjóður fær til sín í formi sekta, það sem skiptir máli er að fækka slysum á vegköflum, þar er stóri kostnaðurinn fyrir samfélagið," segir hann. 

45.000 brot í fyrra

Þó sé ekki nóg að fjölga myndavélum að óbreyttu, því fleiri starfsmenn þurfi í úrvinnsluna. „Við höfum ekki mannafla til að vinna úr öllum vélunum. Á síðasta ári voru 45.000 brot úr hraðamyndavélum, það var metár, og það eru þrír starfsmenn að vinna úr vélunum. Ég held það hljóti að vera heimsmet," segir hann. 

Auður tekur undir að það þurfi að fjölga myndavélum, en einnig sé kominn tími á að endurnýja þann búnað sem er fyrir. „Nú í júlí eru 10 ár síðan fyrstu vélarnar voru settar upp. Það er komið að endurnýjun kerfisins og okkur finnst eðlilegt að sú endurnýjun fari fram með meðalhraðaeftirliti," segir Auður.