Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Brynjar kominn með gögnin í Downey-málinu

08.08.2017 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er kominn með gögn um þá sem fengið hafa uppreist æru. Í þessum gögnum er meðal annars að finna nöfn þeirra tveggja sem gáfu Róberti Downey, áður Róberti Árna Hreiðarssyni, meðmæli þegar honum var veitt uppreist æru til að hann gæti fengið lögmannsréttindi sín aftur.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskaði um miðjan júlí eftir öllum gögnum frá dómsmálaráðuneytinu um mál Roberts Downeys.

Ráðuneytið hefur nú afhent Brynjari gögn um þá sem hafa fengið uppreist æru, hvernig þessu ferli sé háttað, meðmælendabréf og upplýsingar aftur í tímann, meðal annars fjölda þeirra sem fengið hafa uppreist æru og hverjir ekki.

Fréttastofa hefur reynt að fá gögnin í máli Downeys, meðal annars hjá ráðuneytinu og Héraðsdómi Reykjaness en komið að lokuðum dyrum. Ákvörðun ráðuneytisins hefur verið kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er kominn með umrædd gögn og hann reiknar með að boða til fundar í nefndinni eftir helgi. Hann segist ekki eiga von á því að aðrir nefndarmenn fái öll gögn í hendurnar. „Meðmælendabréfin fá þeir ekki,“ segir Brynjar, ráðuneytið hafi afhent  þessi gögn sem algjört trúnaðarmál. Brynjar tekur þó skýrt fram að nefndarmennirnir fái að sjá þau á fundinum. 

Sú ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að veita Róberti Downey uppreist æru vakti sterk viðbrögð en Downey var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum.  

Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar stúlkunnar, hefur óskað eftir því að dómsmálaráðuneytið endurskoði mál Róberts. „Hverjir eru þeir tveir valinkunnu einstaklingar sem, samkvæmt lögum, settu nafn sitt við að maðurinn sé fullkomlega fær um að girnast ekki börn framar?“ skrifaði Bergur í aðsendri grein í Fréttablaðinu fyrr í sumar.