Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brýn þörf á byltingarkenndum breytingum

10.10.2018 - 10:09
Mynd: RúV / RÚV
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, segir að mannkynið þurfi að gera byltingarkenndar breytingar á öllum sviðum til að eiga möguleika á árangri í loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfi nauðsynlega að taka á vandanum eins og hverri annarri alvarlegri ógn.

Verja þarf 2,5% af heimsframleiðslu til aðgerða á sviði loftslagsmála, árlega til ársins 2035, ætli mannkynið sér að afstýra því að meðalhiti á jörðinni hækki um meira en 1,5 gráður með hörmulegum afleiðingum fyrir lífríkið allt. Hlýnunin hefur þegar náð einni gráðu. Þetta var meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í Seúl fyrr í vikunni. Skýrslan hefur verið þrjú ár í smíðum og byggir á rannsóknum 90 vísindamanna frá 40 löndum. Niðurstaða þeirra er að það verði að bregðast við strax, annars verði bæði erfiðara og dýrara að takast á við afleiðingarnar í framtíðinni. 

Stefán var gestur Morgunútvarpsins í morgun þar sem hann ræddi niðurstöður skýrslunnar. Hann segir að ekki sé lengur til neitt eitt hagkvæmt svar við því hvernig hægt sé að sigrast á loftslagsvandanum. Smávægilegar breytingar í neyslumynstri dugi ekki lengur til heldur þurfi að stokka upp og gjörbreyta allri hegðun til að ná raunverulegum árangri.

 „Við höfum engan annan valkost. Við þurfum að stokka allt upp. Breyta því hvað við borðum, hvernig við ferðumst, hvernig fyrirtæki eru rekin, hvernig borgir eru skipulagðar, hvernig landið er notað. Það þarf að stokka allt upp. Það er ekki lengur til neitt eitt svar, hafi það einhvern tímann verið til er það örugglega ekki til lengur, það þarf sem sagt að breyta öllu. Það er bara í stuttu máli þannig.

Skýrslan gengur út frá því að tíminn sé á þrotum og  bregðast þurfi við loftslagsbreytingum af fullri hörku. Ákveðnum árangri þarf að ná fyrir árið 2030.  Stefán segir fólk tilbúið til breytinga en þurfi leiðsögn. 

„Við skynjum þessa neyð öðruvísi því hún hefur vofað yfir okkur lengi. Þetta er ekki eins og það sé einhver að ráðast á okkur, eða við skynjum það ekki þannig, en neyðin er alveg sú sama. Maður getur líkt þessu  við að ef að það kemur í ljós að einhver matur eða drykkur sé lífshættulegur, 95% líkur á að þú veikist ef þú drekkur þetta, þá gera náttúrulega yfirvöld eitthvað. Þau banna þá þennan drykk eða mat eða hvað sem þetta er. Þetta er samskonar ógn. Við erum ekkert í öðruvísi stöðu. Við stöndum frammi fyrir þessari ógn og við höfum ótrúlega mikinn sveigjanleika ef við áttum okkur á að það er enginn annar valkostur. “

Þó vitund almennings hafi aukist mikið á síðustu tveimur árum er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg.  Horfast þarf í augu við vandann og viðurkenna neyðina. Árangur náist ekki nema með því að tækla vandann eins og hverja aðra alvarleglega ógn við mannkynið.

„Það er skiljanlegt að fólk flest, eins og ég og þú, við erum hikandi og vitum ekkert alveg hvað við eigum að gera og svo fer maður að hugsa „það skiptir engu máli þó ég sé að gera þetta því enginn annar gerir neitt“ þess vegna erum við á þeim tímapunkti núna að mínu mati að það er óskaplega mikilvægt að stjórnvöld dragi vanginn og vagninn verður ekkert dreginn með neinum vettlingatökum. “ 

„Líf mjög margra verður erfitt eða óbærilegt og plánetan verður mun, mun verri staður til að búa á og stór svæði á jörðinni gætu orðið óbyggileg. Það er bara það sem við stöndum frammi fyrir. Ég orða þetta stundum þannig að við erum komin á þann stað að loftslagsmál eru ekki kafli í bókinni, þau eru bókin sjálf.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.