Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bryggjukanturinn uppfyllti ekki öryggisreglur

Mynd með færslu
 Mynd: Dalvíkurbyggð - RÚV
Bryggjukantur á Árskógssandi er fimm sentimetrum lægri en lög kveða á um. Þrír létust í nóvember þegar bifreið þeirra fór yfir kantinn og lenti í sjónum. Árið 2004 áttu allar hafnir landsins að vera búnar að gera kanta við bryggjur 20 sentímetra háa. Rannsóknarnefnd samgönguslysa beindi því til hafnarsviðs Dalvíkurbyggðar í nóvember að gera tafarlausar úrbætur á hafnarkantinum á Árskógssandi.

Ekkert gefið út fyrr en niðurstöður krufningar liggja fyrir

Þann 3. nóvember létust maður, kona og fimm ára dóttir þeirra þegar jepplingur þeirra hafnaði í sjónum í höfninni á Árskógssandi. Bílnum var ekið á eðlilegum hraða eftir bryggjunni en stoppaði ekki við landganginn þar sem Hríseyjarferjan var við bryggju og fór yfir hafnarkantinn. Enn er beðið eftir niðurstöðum krufningar á ökumanninum, samkvæmt rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri, og ekkert verður gefið út fyrr en þær liggja fyrir. Það gæti tekið nokkrar vikur til viðbótar.

Höfðu til ársins 2004 til að gera úrbætur

Fréttablaðið greinir frá því í dag að kanturinn við bryggjuna uppfylli ekki núgildandi reglugerð varðandi hæð, en hann er um 15 sentímetra hár. Í reglugerð frá 2000 segir að allar hafnir eigi að hafa kanta sína 20 sentímetra háa og hafnaryfirvöld höfðu til ársins 2004 til að gera úrbætur. 

15. nóvember sendi rannsóknarnefnd samgönguslysa Dalvíkurbyggð bréf þar sem farið er fram á tafarlausar úrbætur á hafnarkantinum, sem er fimm sentímetrum of lágur. Í bréfinu segir að enn sé ekki ljóst hvers vegna ökumaðurinn náði ekki að stöðva bílinn með þeim afleiðingum að hann fór í sjóinn.  

Samgöngustofa fór í eftirlit fyrir þremur árum

Árið 2014 fór eftirlitsmaður frá Samgöngustofu, sem hefur formlegt eftirlit með öryggi í höfnum, í allar hafnir landsins og tók út ákveðna þætti. Þórhildur Elínardóttur, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir í samtali við fréttastofu að henni sé ekki kunnugt um hvort sérstök mæling á hafnarköntum hafi verið í þeirri yfirferð. Samgöngustofa hefur fundað með Hafnarsambandi Íslands um öryggismál og í kjölfarið var sent dreifibréf á allar hafnir landsins hvað varðar öryggismál. 

Búið að koma upp stólpum við bryggjuna

Þorsteinn Björnsson, hafnarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir við fréttastofu að nú sé unnið að því að hækka kantinn en þegar hafi verið komið fyrir steypustólpum til að koma í veg fyrir að bílar geti keyrt fram af bryggjunni. Það hafi verið gert áður en bréfið frá rannsóknarnefndinni kom. Hann furðar sig á því að Samgöngustofa hafi ekki sett út á hæð kantsins 2014, ef hann var ekki í samræmi við reglugerð. Hann vísar málinu að öðru leyti til Vegagerðarinnar, sem sé eigandi ferjubryggjunnar. 

Vill skoða öryggismál í öllum höfnum landsins

Sævar Helgi Lárusson, rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir að nefndin hafi einungis skoðað höfnina á Árskógssandi og viti því ekki hvernig ástandið sé annars staðar. 

„Það verður að sjálfsögðu tekið til skoðunar hvort ekki sé rétt að fara yfir þessi mál á öðrum höfnum, sérstaklega ferjuhöfnum, sem eru ætlaðar almenningi,“ segir hann. „Þegar þetta skelfilega slys verður þá stöðvast bíllinn ekki á kantinum og að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að skoða hvort ekki sé hægt með einhverjum hætti að útbúa þetta þannig að svona lagað geti helst ekki gerst.”  Niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar vegna slyssins er að vænta á næsta ári. 

Uppfært klukkan 15:00: Til áréttingar: Vegagerðin er eigandi ferjubryggjunnar þar sem ferjan leggur, en Dalvíkurhafnir er eigandi hafnarinnar.