Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brutust inn í opinberar vefsíður

26.06.2017 - 01:35
epa05542971 Governor of Ohio John Kasich speaks during a news conference following a meeting on the Trans-Pacific Partnership (TPP) with US President Obama and business, government, and national security leaders, at the White House, in Washington, DC, USA
 Mynd: EPA
Brotist var inn í nokkrar opinberar vefsíður í Ohio-fylki Bandaríkjanna í dag og þær látnar sýna áróður fyrir hið svokallaða Íslamska ríki. Þar á meðal var vefsíða ríkisstjórans, Johns Kasichs. Skilaboðin eru sett fram á svartan bakgrunn og stendur að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, muni svara til saka fyrir „hvern blóðdropa fellur í múslimaríki“ en þar fyrir neðan stendur „ég elska Íslamska ríkið“. 

Hópurinn sem stóð fyrir árásinni kallar sig Team System DZ að því er fram kemur á vef BBC. Tölvuþrjótarnir hafa áður brotist í vefsíður með svipuðum hætti og birt fjandsamleg skilaboð í garð Ísraels. 

Þá varð vefsíða bæjarins Brookhaven í New York-fylki einnig fyrir barðinu á tölvuþrjótunum, hefur BBC eftir New York Post.

Josh Mandel, ríkisféhirðir Ohio, segir á Twitter að með þessu sé öfgaíslam að laumast til Bandaríkjanna og beinir hann skilaboðum sínum til „frelsiselskandi Ameríkana“. Myndin með fréttinni er af John Kasich, ríkisstjóra Ohio, en talsmaður sagði fyrir hans hönd að vefsíða hans verði vöktuð þangað til botn er kominn í málið.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV