Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brutu lög um opinber innkaup

17.09.2018 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Embætti landlæknis og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins brutu lög um opinber innkaup árið 2013 þegar stofnanirnar sömdu við fyrirtækið TM Software ehf. um þróun á hugbúnaði fyrir vefinn heilsuvera.is. í stað þess að bjóða verkið út. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 3. september.

Samtök verslunar og þjónustu ráku málið fyrir hönd Skræðu ehf. Lárus Ólafsson, lögfræðingur samtakanna, segir úrskurðinn ákveðinn sigur. Það sé þó bagalegt hve hægt gekk að fá upplýsingar um samning þessara ríkisstofnana við TM Software. „Þegar við fórum af stað árið 2013 var beiðnum okkar um upplýsingar hafnað þannig að við fengum þær eftir úrskurð nefndar um upplýsingamál. Þannig dróst málið á langinn og möguleikar á að fá samningnum rift takmörkuðust,“ segir Lárus.

Á vefnum Heilsuvera gefst fólki kostur á að eiga samskipti við heilbrigðisstofnanir. Samkvæmt lögum um opinber innkaup sem voru í gildi á þessum tíma, árið 2013, voru viðmiðunarfjárhæðir vegna kaupa á vörum 5 milljónir króna og vegna þjónustu og verka 10 milljónir. Í úrskurðinum segir að samkvæmt samningi Embættis landlæknis við TM Software skyldi embættið greiða sjö milljónir og heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins þrjár milljónir fyrir þróun á hugbúnaði. Fyrir afnotarétt á hugbúnaðinum hafi Embætti landlæknis svo átt að greiða 330.000 krónur á mánuði í fjögur ár. 

Skræða fór fram á það í kærunni að úrskurðarnefndin tæki afstöðu til þess hvort Embætti landlæknis og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bæri að greiða skaðabætur. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að slá því föstu að samið hefði verið við Skræðu um innkaupin ef verkið hefði verið boðið út og tók því ekki afstöðu til skaðabótakröfunnar. Stofnununum tveimur er gert að greiða 900.000 krónur í málskostnað. 

Í vörn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir meðal annars að stofnunin hafi greitt þrjár milljónir og samningurinn hafi varðað kaup á þjónustu og að viðmiðunarfjárhæð hafi verið 14,9 milljónir á þeim tíma. Þá eigi ekki að líta á stofnanirnar tvær sem einn aðila. Samkvæmt úrskurðinum kom fram í vörn Embættis landlæknis að heildargreiðslur stofnunarinnar hafi verið sjö milljónir. Í viðauka með samningnum hafi verið talað um að heildarkostnaður við verkefnið hafi verið 45 milljónir króna. Það sé hins vegar gróft mat á kostnaði við þróun. Samningurinn fjalli hins vegar aðeins um ákveðinn hluta af þeim verkefnum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir