Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Brussel: Fórnarlömbin frá minnst 40 löndum

23.03.2016 - 06:48
epa05226491 People gather and light candles at the Place de la Bourse during a vigil to pay tribute to the victims of the attacks in Brussels, Belgium, 22 March 2016. Security services are on high alert following two explosions in the departure hall of
 Mynd: EPA
Fórnarlömb sprengjuárásanna í Brussel í gær, látnir og slasaðir, komu frá minnst fjörtíu löndum. Þetta segir Didier Reynders, utanríkisráðherra Belgíu. Reynders segir afar erfitt að bera kennsl á hina látnu, sérstaklega þá sem létust í sprengingunni á jarðlestarstöðinni. Enn er ekki búið að staðfesta þjóðerni nema eins úr hópi þeirra þrjátíu og fjögurra sem létust. Það er kona frá Perú, sem dó á flugvellinum í Zaventem, þar sem hún var ásamt ungum börnum sínum og eiginmanni.

Flestir hinna látnu og særðu eru væntanlega belgískir ríkisborgarar, en vitað er að á meðal þeirra sem særðust eru einnig minnst 8 Frakkar, fjórir Bandaríkjamenn, þrír Svíar, tveir Bretar, tveir Indverjar, tveir Kólumbíumenn, einn Ekvadori og einn Hollendingur.   Hátt á þriðja hundrað manns særðist í árásunum, þar af tugir mjög alvarlega.