Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brunaútsala lambakjöts geti þýtt byggðaröskun

31.08.2017 - 22:22
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands
 Mynd: ruv
Formaður Bændasamtakanna á von á að stjórnvöld ætli í vikunni að ljúka við að útfæra aðgerðir til að bregðast við vanda sauðfjárbænda. Þær muni fela í sér fækkun í greininni sem bændur séu tilbúnir til að horfast í augu við. Hann gagnrýnir brunaútsölu á lambakjöti í íslenskum matvöruverslunum sem geti valdið gjaldþroti og byggðaröskun.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna segir að tillögurnar muni snúa að því að styðja við þá bændur sem vilji, eftir atvikum, draga úr framleiðslu eða hætta sauðfjárbúskap. „Bændur lögðu upphaflega til ákveðið heildarplan sem ætti að leysa þetta vandamál sem sneri að því að hafa einhvers konar inngrip í markaðinn, taka á þessari birgðastöðu, og jafnframt ætluðum við ekkert að skorast undan því að draga úr framleiðslunni og við verðum að vona það að ríkið komi með hugmyndir sem snúa að því að leysa málið í heild,“ segir Sindri.

Hann segir að eitt af því sem nauðsynlegt sé að gera er að taka á birgðastöðunni. Hins vegar sé staðan þannig núna að matvöruverslanir séu farnar að bjóða lambalæri á undir átta hundruð krónum á kílóið, líkt og auglýst hafi verið í dag. Slík verðlagning geti haft alvarlegar afleiðingar. „Þetta er kannski ágætt fyrir neytendur til skamms tíma, að fá vöru á hagstæðu og góðu verði en þegar á að fara að selja á einhverri brunaútsölu, lambakjöt hér heima og undir kostnaðarverði, þá mun það leiða til þess að það verði mjög erfitt í íslenskum sauðfjárbúskap og gæti þýtt gjaldþrot og byggðaröskun,“ segir hann.