Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brú veitti ófullnægjandi upplýsingar um lán

18.12.2017 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Brú, lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, hafi brotið gegn lögum með því að veita ekki fullnægjandi upplýsingar um lán sem sjóðurinn auglýsti.

Hagsmunasamtök heimilanna kvörtuðu til Neytendastofu þann 19. desember í fyrra. Kvörtunin laut að ófullnægjandi upplýsingagjöf í kynningum Brúar lífeyrissjóðs á óverðtryggðum lánum, annars vegar í fréttabréfi og hins vegar á vefsíðu sjóðsins. Samtökin töldu að lífeyrissjóðurinn hefði brotið lög með því tilgreina hvorki árlega hlutfallstölu kostnaðar ná heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða ásamt lýsandi dæmi. Þá bentu samtökin á að sjóðurinn hefði ekki veitt upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur risi milli lánveitenda og neytenda. 

Neytendastofa tók undir sjónarmið Hagsmunasamtaka heimilanna og komst að þeirri niðurstöðu að Brú lífeyrissjóður hefði brotið gegn lögum, annars vegar um neytendalán og hins vegar um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. 

Fjallað er um ákvörðunina á vefsíðu Brúar lífeyrissjóðs. Þar segir að þegar ný fasteignalán tóku gildi, fyrr á þessu ári, hafi sjóðurinn endurskoðað verklag í tengslum við lánveitingar. Síðan þá hafi lán ekki verið auglýst og sjóðurinn fylgt öllum kröfum um upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Þó harmar Lífeyrissjóðurinn ákvörðun neytendastofu. „Það er ekki ætlun lífeyrissjóðsins að veita ófullnægjandi uppýsingar til sinna sjóðfélaga eða láta hjá líða að greina frá upplýsingum sem skipta máli fyrir sjóðfélaga sína,“ segir í tilkynningunni.  

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV