Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Brottvísun Róhingja fordæmd

05.10.2018 - 12:00
Erlent · Asía
epa06202002 Indian activists hold placards during a protest march against the alleged persecution of Myanmar's Rohingya Muslim minority in New Delhi, India, 13 September 2017. Protest was held against the Myanmar government after thousands of
Indverskir múslimar mótmæla meðferðinni á Róhingjum í Mjanmar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fordæmdi í dag þá ákvörðun Indverja að vísa sjö Róhingjum úr landi og senda þá heim til Mjanmar. Mennirnir, sem verið höfðu í haldi frá 2012 vegna brota á indversku innflytjendalöggjöfinni, voru afhentir yfirvöldum í Mjanmar á landamærum ríkjanna í gær. 

Sameinuðu þjóðirnar höfðu áður ítrekað lýst yfir áhyggjum af örlögum mannanna í ljósi ofsókna gegn Róhingjum í Mjanmar að undanförnu og hvatt ráðamenn í Indlandi til að leyfa mönnunum að vera þar áfram.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja hættu á að mennirnir sæti ofbeldi og misþyrmingum. Það sé alls óvíst að yfirvöld í Mjanmar viðurkenni þá sem ríkisborgara. 

Róhingjar á Indlandi hafa víða sætt ofsóknum undanfarin tvö ár þar sem herskáir hópar hindúa hafa verið fremstir í flokki. Í ágúst í fyrra tilkynnti indverska stjórnin að þeim sem dveldu ólöglega í landinu yrði vísa úr landi, þar á meðal um 40.000 Róhingjum, þrátt fyrir að um 16.500 þeirra væru skráðir sem flóttamenn í bókum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

Rajnath Singh, innanríkisráðherra Indlands, segir alla Róhingja ólöglega í landinu og fyrirskipaði um mánaðamótin söfnun upplýsinga um þá sem þar dveldu.