Brottreksturinn hafi engin áhrif á starfið

01.12.2018 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, þingmennirnir sem reknir voru úr Flokki fólksins í gær, sendu frá sér tilkynningar eftir hádegi í dag þar sem þeir fjalla um aðkomu sína að samkvæminu á barnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn. Þeir segja brottreksturinn úr Flokki fólksins ekki hafa áhrif á störf sín og áherslur sem þingmenn.

Ólafur segir ákvörðun stjórnar Flokks fólksins um að reka þá Karl Gauta úr flokknum hafa komið á óvart. „Ég geri ekki lítið úr þeim mistökum mínum að sitja þegjandi undir þeim ljótu orðum sem féllu þetta kvöld á veitingahúsi.“ Hann segist hafa yfirgefið samkvæmið þegar hann sá að í óefni stefndi, en segist hafa átt að fara fyrr. „Með þátttöku minni í þessu samsæti gerði ég ámælisverð mistök sem ég biðst afsökunar á.“

„Kemur spánskt fyrir sjónir að nærvera mín, en um leið hjáseta í hnífaköstum þessa orðljóta samkvæmis, þyki gild ástæða til brottreksturs úr stjórnmálaflokki,“ skrifar Ólafur. „Með þessari stjórnarákvörðun sýnast ný viðmið verið sett í Flokki fólksins. Vonandi er að þeir sem eftir eru standist þær siðferðiskröfur sem til þeirra hljóta héðan í frá að vera gerðar.“

Karl Gauti segist þykja það leitt að hafa setið fundinn „allt of lengi“. Hann segist ekki hafa lagt það „orð í belg sem talist getur siðferðislega ámælisvert“. Ákvörðun Flokks fólksins um að reka hann úr flokknum muni ekki hafa nein áhrif á störf hans sem þingmaður. „Ég gaf kjósendum mínum fyrirheit um áherslur og við þau mun ég standa.“