Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brotið á réttindum sjúklinga

08.01.2019 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvorki húsnæði bráðamóttöku Landspítalans né mönnun uppfyllir reglugerð um faglegar lágmarkskröfur miðað við starfsemina þar sem er. Þá er ekki hægt að uppfylla ýmis lagaákvæði um réttindi sjúklinga við núverandi aðstæður. Þetta kemur fram í úttekt embættis landlæknis á alvarlegri stöðu bráðamóttökunnar.

Undirmönnun og skortur á hjúkrunarrýmum eru helstu ástæður alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans, segir í úttektinni, en ekki hefur verið brugðist nægjanlega við þeim viðvörunarbjöllum sem hringt hafa sem og ábendingum stjórnenda og starfsfólks um að öryggi sjúklinga geti verið hætta búin. Vandinn sem við er að etja sé þess eðlis og af þeirri stærðargráðu að það sé ekki einungis á valdi Landspítalans að bregðast við, sem að mati embættis landlæknis þolir enga bið:

„Nú er svo komið að vandinn er af þeirri stærðargráðu að við þetta ástand verður ekki unað. Það getur skapað jarðveg fyrir óvænt atvik og hættu á frekara brottfalli starfsfólks."

Sjúklingar hafa beðið allt að 100 tíma eftir innlögn

Fram kemur að Bráðamóttakan sinni bráðastarfsemi sinni vel og endurspeglist það í meðaldvalartíma þeirra sem útskrifast heim, en hann hefur staðið í stað og verið 4-5 tímar síðastliðið ár þrátt fyrir aukin umsvif. Vandinn liggur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn.

Meðaldvalartími sjúklinga sem bíða eftir innlögn á aðrar deildir Landspítalans hefur lengst verulega, og er nú um 23,3 tímar samanborið við um 16,6 tíma á sama tíma í fyrra. Þegar úttektin var gerð var lengsta bið eftir innlögn 66 tímar en dæmi eru um að sjúklingar hafi beðið lengur en 100 tíma á deildinni eftir innlögn. Þeir sem bíða hvað lengst eftir innlögn eru aldraðir, sjúklingar með flókin og margþætt vandamál og sjúklingar í einangrun. Núverandi stjórnendur deildarinnar hafa ekki áður séð svo langan meðaldvalartíma á bráðamóttöku. Talið er sérstakt áhyggjuefni að þessi staða sé fyrir hendi nú, áður en inflúensutímabilið gengur í garð en þá sé fyrirsjáanlegt að staðan versni.

Mynd með færslu
 Mynd:

Sem dæmi er nefnt að toppur varð í komufjölda miðvikudaginn 5. desember síðastliðinn, eða alls 216. Að auki var 51 sjúklingur frá fyrri dögum of veikur til að fara heim og því enn á deildinni. Þessu til viðbótar fengu ekki allir innlagnarsjúklingar sem komu þann daginn rúm. Því var yfir 260 sjúklingum sinnt á Bráðamóttöku þennan tiltekna dag. Þennan dag og dagana á undan og eftir var rúmanýting á Landspítala yfir 100% og mikil svokölluð innlagnarteppa.

Óviðunandi aðstæður

Í úttektinni segir að til undantekninga ætti að heyra að sjúklingar séu skoðaðir á gangi en ekki á stofu. Óásættanlegt sé að sjúklingar dvelji í gluggalausu rými lengur en í nokkrar klukkustundir. Þá sé óviðunandi að sjúklingar með sjúkdóma, sem þarfnast einangrunar, geti ekki verið í einangrun vegna aðstöðuleysis. Skráðum atvikum tengdum umhverfi og aðstæðum á bráðamóttöku hafi fjölgað síðustu mánuði og brýnt sé að bregðast við því. Ákveðinn hluti skráðra atvika tengist augljóslega núverandi ástandi á Landspítalanum, þ.e. skorti á legurýmum, aðstöðuleysi, undirmönnun og álagi. Þá séu ótalin önnur atvik þar sem sambandið er ekki eins augljóst, til dæmis atvik tengd lyfjagjöfum og verkferlum.

Vegna skorts á legurýmum fari sjúklingar oft á deildir þar sem ekki er fyrir hendi sérhæfð þekking til að sinna þeim. Þá er þekkt að ítrekað hefur þurft að fresta skurðaðgerðum vegna skorts á legurýmum.

Mikill útskriftarvandi er á lungnadeild og mikið um erfið mál að sögn deildarstjóra. Sjúklingar sem leggjast inn eru sífellt veikari og fleiri sjúklingar eru nú en áður meðhöndlaðir í öndunarvélum. Margir sjúklingar sem liggja lengi á deildinni gætu verið heima með miklum stuðningi sem ekki er fyrir hendi vegna skorts á sérhæfðri heimaþjónustu. Meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými er 50-60 dagar. Sumir hafa fengið höfnun í 3-6 skipti og bíða jafnvel í yfir 100 daga á Landspítala eða koma endurtekið til innlagnar að heiman. Stundum fá einstaklingar ekki samþykkt færni- og heilsumat þar sem öll úrræði heima eru ekki talin fullreynd. Hins vegar er orðið ljóst við daglega umönnun að einstaklingurinn getur ekki endurhæfst eða farið aftur heim.

Hver hjúkrunarfræðingur þarf að sinna of mörgum

Rúmum á spítalanum sem ekki hefur verið hægt að nýta vegna hjúkrunarfræðingaskorts hefur fjölgað með hverju ári og er tekið sem dæmi að þau voru átta í lok árs 2016 en eru nú 35 talsins. Álag á starfsfólk er sérstakt áhyggjuefni, samkvæmt úttektinni.

„Hver hjúkrunarfræðingur þarf að sinna of mörgum sjúklingum og við það eykst hætta á að eitthvað fari úrskeiðis,“ segir í úttektinni. Eftirliti getur orðið ábótavant, hætta á þrýstingssárum og byltum getur aukist, hætta getur aukist á því að hjúkrun sé ekki veitt, erfiðara er að tryggja öryggi í lyfjaumsýslu, grunnþörfum kann að vera miður sinnt og erfiðara að halda uppi sýkingavörnum svo vel sé. Þá er deildin verr í stakk búin til að taka á móti fólki úr hópslysi við slíkar aðstæður. Þess má geta að Hjartagáttin var varadeild vegna hópslysa og eftir lokun hennar þarf að endurskoða viðbragðsáætlun Landspítalans. Það hefur ekki verið gert.

Fram kemur að starfsfólk leggi sig fram um að gera sitt besta til að tryggja gæði og öryggi en viðvarandi álag og undirmönnun geti aukið hættu á að eitthvað fari úrskeiðis. Í nýrri rannsókn var sýnt fram á að dánarlíkur sjúklinga á sjúkrahúsi jukust um 3% á deildum þar sem ekki var nóg af hjúkrunarfræðingum. Í dánarmeinaskrá embættis landlæknis eru þó engin merki um aukna dánartíðni nú á Landspítalanum.

Álagið bitnar á starfsfólki

Starfsfólk sem talað var við var á einu máli um að álag væri mikið á allar stéttir og nú væri ekki lengur um álagstoppa að ræða heldur væri viðvarandi of mikið álag. Þetta er farið að bitna á starfsfólki, segir í skýrslunni, og lýsir sér meðal annars í auknum veikindum. Algengt er að starfsfólk komist ekki í mat eða úr vinnu eftir fullan vinnudag þar sem ekki er talið óhætt að yfirgefa vaktina vegna álags. Frítími er ekki virtur og áreitið hefur neikvæð áhrif á fjölskyldulíf fólks. Sumir töluðu um að þeir væru með samviskubit bæði gagnvart vinnustað og fjölskyldu. Nokkrir minntust á að þeir kviðu stundum fyrir að mæta í vinnuna. Fram kom að fólk væri farið að hugsa sér til hreyfings, gæti hreinlega ekki unnið undir svona álagi.

Skert lífsgæði aldraðra

Fram kemur að Landspítalinn hafi í raun tekið að sér að veita mörgum sjúklingum þjónustu sem ætti að veita á hjúkrunarheimilum, en vistun aldraðra á bráðasjúkrahúsi eftir að meðferð þar lýkur skerði lífsgæði þeirra og sé talin öldruðum áhættusöm, til dæmis vegna hættu á sýkingum.

Í samtölum við stjórnendur kom fram að fólk fái stundum ekki samþykkt færni- og heilsumat þar sem öll úrræði heima væru ekki talin fullreynd, jafnvel þótt að mati starfsfólks væri orðið ljóst við daglega umönnun að viðkomandi gæti ekki endurhæfst eða farið aftur heim.

Þá er bent á það í skýrslunni að fjármunum sé sóað með seinkun á útskrift aldraðra.

Efla þarf mönnun og fjölga hjúkrunarrýmum

Landlæknir beinir þeim ábendingum til heilbrigðisráðuneytis að efla mönnun, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, til skemmri og lengri tíma. Ljóst sé að skoða þurfi kjör, vinnuskipulag og vinnuumhverfi og mennta fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.

Opna þurfi hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi eins fljótt og verða megi. Nú er áætlað að opna það í febrúar. Einnig þurfi að flýta opnun sjúkrahótels, en hún er nú áætluð 1. apríl. Jafnframt þurfi að meta hvort grípa þurfi til frekari úrræða eins og að fela til þess bærum aðilum að reka hjúkrunarrými til bráðabirgða.

Meðal annarra ábendinga er að efla verði heimahjúkrun og heimaþjónustu auk dagdvalarúrræða og leggja áherslu á samhæfingu öldrunarþjónustu. Einnig að auka áherslu á heilsueflingu eldri borgara.

Úttektin var unnin í kjölfar þess að 6. desember síðastliðinn barst embætti landlæknis ábending frá sérfræðilækni í bráðalækningum um að vegna mikils álags væri öryggi sjúklinga ógnað á bráðamóttöku Landspítalans. Forstjóri spítalans tók undir þær áhyggjur, sem og framkvæmdastjórn spítalans. Í ljósi alvarleika málsins sendi landlæknir minnisblað um stöðuna til heilbrigðisráðherra þann 17. desember en úttektin var birt í heild sinni í dag. Um er að ræða hlutaúttekt, sem felur í sér að skoðaðir eru ákveðnir þættir sem mestu máli eru taldir skipta, en ekki gerð heildstæð úttekt.