Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brothers á óperuhátíð í Búdapest

Mynd með færslu
 Mynd: Jyske Opera

Brothers á óperuhátíð í Búdapest

24.01.2019 - 17:30

Höfundar

Íslensku óperunni hefur verið boðið að sýna óperuna Brothers eftir Daníel Bjarnason á Armel-óperuhátíðinni í Búdapest í júlí.

Óperan var sýnd í Eldborg í júní 2018 og hlaut mikið lof gagnrýnenda, var valin tónverk ársins á Grímunni það ár og Daníel Bjarnason hlaut hin virtu dönsku Reumert-verðlaun, auk þess að vera tilnefndur til Norrænu tónlistarverðlaunanna. Brothers er samstarfsverkefni Jyske Opera og Íslensku óperunnar en óperan var frumsýnd í Árósum 2017 þar sem hún var einn af helstu viðburðum Menningarborgar Evrópu það ár.

Mynd með færslu
 Mynd:
Daníel Bjarnason hlaut íslensku bjartsýnisverðlaunin á síðasta ári.

Uppfærslan á Íslandi var gerð í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands og sýnd á Listahátíð í Reykavík. Óperan er byggð á kvikmyndinni Brødre eftir danska kvikmyndaleikstjórann Susanne Bier og er leikstýrt af Kasper Holten. Sagan segir frá tveimur bræðrum sem hafa valið ólíkar leiðir í lífinu. Michael sinnir herþjónustu og nýtur velgengni í starfi og einkalífi en yngri bróðirinn Jannik hefur komist í kast við lögin og nýtur ekki sömu hylli foreldranna.

Flestir flytjendur í Búdapest verða þeir sömu og á Íslandi utan þess að ungversk hljómsveit tekur þátt í flutningnum undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Kór Íslensku óperunnar leikur stórt hlutverk í uppfærslunni en hann fer með til Ungverjalands. Þá hefur óperuveitan Opera Vision sem sendir út valdar óperur á sínum vegum ákveðið að sýna Brothers í febrúar en aðgangur að veitunni er án endurgjalds og útsendingar hennar ná mjög víða um heim.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Daníel ráðinn til Tónlistarhátíðar Rásar 1

Menningarefni

Daníel hlaut íslensku bjartsýnisverðlaunin

Klassísk tónlist

Bræður á bak við tjöldin

Tónlist

Verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í dag