Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brothættar byggðir: Bitlaust fyrir Árneshrepp

27.12.2018 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkefni brothættra byggða vantar stjórnsýslulegt vægi segir verkefnastjóri brotthættra byggða í Árneshreppi. Þá reiði verkefnið sig á þáttöku íbúa sem í svo fámennu sveitarfélagi hafa nú þegar miklum samfélagsskyldum að gegna.

Verkefni sveitarfélagsins á æ færri höndum

Innan við tuttugu manns hafa vetursetu í Árneshreppi. Þótt sveitarfélagið sé fámennt, og hvorki með skóla né verslun, þarf að sinna til dæmis póstþjónustu, flugvelli og mokstri. „Þarna eru alltaf færri og færri til að sinna þessum störfum og á sama tíma þarf fólk að sinna sinni vinnu og afla sér viðurværis - Svo það geriri þetta alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem fækkar,“ segir Skúli Gautason, verkefnastjóri Áfram Árneshreppur, byggðaþróunarverkefnis Byggðastofnunar. „Nú erum við komin á þann stað að þetta er orðið mjög alvarlegt,“ segir Skúli.

Liggi á verkefnum sem eru ekki á færi íbúa

Á síðasta ári varð sveitarfélagið hluti af byggðaþróunarverkefni Byggðastofnunar, brothættar byggðir, en það byggir á þátttöku íbúa, þeirra fáu sem eftir eru. „Þetta miðar að því að íbúarnir sjálfir geri sem allra mest og í þessu litla samfélagi þá eru vissir hlutir sem að íbúarnir geta ekki gert. Við ákváðum að taka stóru ágreiningsmálin út fyrir sviga, sem er Hvalárvirkjun, og þá voru allir sammála um að það verða að koma samgöngubætur. Það gengur ekki að heilt samfélag sé einangrað. Enginn snjómokstur í tvo og hálfan mánuð á ári,“ segir Skúli. „Og ég held að það verði bara að setja niður haka og byrja aðgerðir - strax. Við höfum ekki mikinn tíma,“ segir Skúli.

Verkefni brothættra byggða skorti stjórnsýslulegt vægi

Verkefnastjórn brothættra byggða í Árneshreppi sendi ríkisstjórninni ákall um bættar samgöngur, enda eru þær ekki á færi íbúa. Skúli segir að þörf á auknu vægi brothættra byggða. „Einhvern stjórnsýslulegan status. Að það þýði eitthvað í kerfinu að vera kominn þarna inn. Eins og staðan er í dag. Jú, það eru veittir styrkir og smá kvóti en í kerfinu almennt þá hefur þetta engan status. Það vantar,“ segir Skúli.