Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Brot á fiskeldislögum í Tálknafirði fyrnt

09.08.2017 - 15:24
Arnarlax Laxeldi kvíar sjókvíar Vestfirðir Bíldudalur Arnarfjörður Fiskeldi Suðurfirðir Tálknafjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Slepping 160 þúsund seiða af norskum uppruna í Tálknafjörð árið 2002 verður ekki kærð til lögreglu þar sem málið er fyrnt, þetta segir Soffía Karen Magnúsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun. Fiskistofa og Matvælastofnun vinna nú að því að afla frekari upplýsinga um málsatvik en útgerðarmaður á Tálknafirði kveðst hafa hafa sleppt seiðunum í sjóinn vegna fjárskorts. Slepping seiðanna stangast á við lög um fiskeldi.

 

Soffía segir enn erfitt að segja til um áhrif sleppingarinnar enda óvíst hvaða ástandi fiskurinn var í þegar honum var hleypt út úr stöðinni og hvernig honum hefur reitt af. Þegar ítarlegri upplýsingar liggi fyrir verði frekar hægt að leggja mat á stöðuna. Þar sem málið er gamalt þykir þó ekki raunhæft að grípa til sérstakra aðgerða. Stofnanirnar hafa þó farið þess á leit að viðkomandi varpi frekari ljósi á atburðinn. 

Eftirlitsstofnunum var ekki kunnugt um sleppingu seiðanna en Soffía segir að regluverkið í kringum fiskeldi hafi tekið gríðarlegum breytingum síðan 2002 og kröfur til rekstraraðila aukist til muna.