Brjóst ungra stúlkna straujuð niður

21.02.2018 - 17:30
epa01248014 Chadian refugees wait at the Cameroonian border town of Kousseri after fleeing fighting between rebels and government in Ndjamena, 07 January 2008. Chad's government slapped a night curfew on Ndjamena and southern provinces as rebels who
 Mynd: EPA
Samkvæmt útbreiddri hefð í Afríkuríkinu Kamerún eru brjóst margra ungra stúlkna reyrð niður eða straujuð með heitum áhöldum til að hamla vexti þeirra. Talið er að fjórða hver stúlka í Kamerún hafi fengið viðlíka meðferð.

Ár hvert eru bestu fréttaljósmyndir heims verðlaunaðar undir merkjum World Press Photo. TIlnefningarnar til verðlaunanna voru kunngjörðar á dögunum og meðal myndaraða sem tilnefndar eru í flokki samtímamynda eru ljósmyndir eftir egypska ljósmyndarann Hebu Khamis.

Myndirnar gefa innsýn inn í hefð sem tíðkast víða í Mið-Afríkuríkinu Kamerún, að strauja brjóst ungra stúkna. Þegar stúlkur komast á kynþroskaskeið er reynt að fletja út brjóst þeirra með heitum spöðum til að hægja á þroskanum. Tilgangurinn er sagður vera að gera stelpurnar minna aðlaðandi í augum karlmanna og minnka líkur á því að þeim verði nauðgað. 

Á myndum Khamis má til að mynda sjá 28 ára gamla konu framkvæma aðgerðina á yngri dætrum sínum tveimur, sem eru tíu og sjö ára. Þetta gerir hún eingöngu í þeirri von að dætra hennar bíði önnur örlög en hennar. Elsta dóttir konunnar er 14 ára og hún á barn. Sem þýðir að 28 ára gamla fimm barna móðirin er einnig amma. Og hún vill að yngri dætur hennar gangi menntaveginn áður en þær eignast börn. 

epa01668905 A woman wears a dress with images of Pope Benedict XVI (L) and Cameroon's President Paul Biya, in Yaounde, Cameroon, 18 March, 2009. Pope Benedict XVI arrived in Cameroon 17 March 2009 on his first trip to Africa, the fastest-growing
 Mynd: EPA

Einni af hverri 20 konum er nauðgað

Fjallað er um þessa hefð í umfjöllun hjá Vice frá árinu 2015. Þar segir að það séu fyrst og fremst konur sem sjái um framkvæmd þessarra aðgerða á brjóstum stúlknanna. Margir foreldrar óttast að dætur þeirra nái ekki að ganga menntaveginn ef þær gangi í hjónaband og eignist börn of snemma. Einnig óttist margir foreldrar að stúlkunum þeirra verði nauðgað.

Sá ótti þeirra virðist reyndar ekki úr lausu lofti gripinn. Samkvæmt upplýsingum frá hjálparsamtökunum RENATA, sem sérhæfa sig í aðstoð við fórnarlömb kynferðisofbeldis, hefur einni af hverri tuttugu konum í Kamerún verið nauðgað. Fimmta hver þeirra verður fyrir ofbeldinu af hálfu einhvers innan fjölskyldu sinnar. Í sömu samantekt hjálparsamtakanna segir jafnframt að leiða verði líkum að því að enn fleiri konur séu fórnarlömb kynferðisofbeldis, en mál sem þessi séu oftar en ekki þögguð niður, ekki síst þegar ofbeldið á sér stað innan fjölskyldunnar. Tíu prósent þeirra kvenna sem nauðgað er í Kamerún eru stúlkur undir 10 ára aldri. 

Hitinn eigi að bræða fituna

Aðgerðin er framkvæmkvæmd á stúlkum þegar þær verða kynþroska, en oftast nær eru stúlkurnar á aldrinum átta til tólf ára þegar brjóst þeirra eru straujuð eða reyrð niður, en það eru meðal þeirra aðferða sem beitt er. Þá eru brjóst stúlknanna oftar en ekki barin eða nudduð með heitu áhaldi til að reyna að hamla vexti þeirra. Hugmyndin er að heitu áhöldin nái að bræða fitu sem annars myndast í brjóstunum. 

Í Kamerún búa um 23 milljónir. Talið er að um fjórðungur allra kvenna í landinu hafi gengist undir einhvers konar aðgerð á brjóstum. Hefðin er rótgróin, hefur viðgengist í marga mannsaldra. Oftast eru það konur innan fjölskyldu stúlkunnar, oftast móðirin, sem framkvæmir aðgerðina.

Aðgerðin er ekki ólögleg

Fyrir utan sársaukann og óþægindin sem aðgerðinni fylgja getur gjörningurinn haft ýmsar aukaverkanir í för með sér. Auknar líkur á brjóstakrabbameini og erfiðleikar við brjóstagjöf eru meðal þess sem margar stúlknanna upplifa síðar á lífsleiðinni. 

Þá eru ótalin sú vanlíðan sem margar konurnar upplifa vegna þeira lýta sem aðgerðirnar framkalla á brjóstum kvennana. Franski ljósmyndarinn, Gildas Paré, sagði í viðtali við Vice að hann upplifði sem margar kvennana skömmuðust sín fyrir brjóst sín og margar þeirra vilji gjarnan komast í lýtaaðgerð til þess að laga ör og önnur lýti eftir aðgerðina. 

Viðlíka aðgerðir á brjóstum kvenna fyrirfinnast í fleiri Afríkuríkjum, til að mynda í Benín, Chad og Tógó. Aðgerðin er ekki ólögleg í Kamerún en rúmur áratugur er síðan stjórnvöld réðust í átak til að sporna gegn þessarri útbreiddu meðferð á ungum stúlkum. Markmiðið að útrýma aðgerðunum hefur þó enn ekki borið árangur. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi