Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Brjálað að gera hjá litlu framboðunum

Mynd með færslu
Frá síðustu leiðtogaumræðum.  Mynd:
Minni framboð sem bjóða fram til Alþingis neyðast til að hafna tilboðum um að kynna stefnumál sín sökum manneklu. Þetta segja formenn fjögurra minnstu framboðanna. Formaður Dögunar vill þó fá að gera meira og formaður Flokks fólksins segir að það sé dásamlega gaman í kosningabaráttu.

Baráttan að ná hámarki

Níu dagar eru til kosninga. Baráttan nær hámarki um helgina og hafa flokkarnir vart undan að kynna sig og frambjóðendur sína víðsvegar um landið. Tólf flokkar eru í framboði, þar af eru fimm sem mælast undir fimm prósentum í könnunum: Íslenska þjóðfylkingin, Flokkur fólksins, Húmanistar, Alþýðufylkingin og Dögun. Hver flokkur er með á bilinu 10 til 20 sjálfboðaliða í vinnu, en fáa eða enga launaða starfsmenn. Formennirnir eru flestir sammála um að það sé mikið að gera og nauðsynlegt sé að velja og hafna tilboðum í baráttunni.

„Ég er Pírati en ég vil hjálpa ykkur”

Flokkur fólksins býður fram á landsvísu. Formaðurinn, Inga Sæland, skemmtir sér vel í baráttunni. 

„Við vinnum saman og með því móti er okkur ekkert ómögulegt. Fólkið okkar er að vinna hingað og þangað, bæði tæknimenn og aðrir, og þeir koma úr öllum flokkum,” segir hún. Við eigum meira að segja litla Pírata sem segja: „Ég er Pírati, en ég vil hjálpa ykkur,". Það er bara svo gaman hjá okkur að það er bara dásamlegt.”

Helgi Helgason er formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem býður fram í tveimur kjördæmum. 

„Þetta gengur ágætlega en við höfum ekki mannskap í þetta allt saman, enda mjög mikið í boði. En við reynum svona að dreifa kröftunum á það sem við teljum koma okkur til góða,” segir Helgi. 

Reyna að forgangsraða

Alþýðufylkingin býður fram í fimm kjördæmum. Formaðurinn, Þorvaldur Þorvaldsson, segir að það sé mjög mikið að gera. 
„Við höfum auðvitað litlum peningum úr að spila og reynum að forgangsraða þannig að okkar sjónarmið nái eyrum sem flestra landsmanna,” segir Þorvaldur.

Húmanistaflokkurinn býður fram í Reykjavíkurkjördæmi suður. Júlíus Valdimarsson formaður segir að þó að flokkurinn sé lítill, þá berist þeim óskir um þátttöku í viðburðum eins og öðrum flokkum. 

„Við náttúrulega verðum að velja og hafna, það er ekki spurning. Við erum nú aktívistar miklir og höfum reynslu í kosningum, og við erum býsna ánægð með að hafa getað sinnt flestum málum sem standa hjarta okkar næst,” segir Júlíus. 

Vilja fara á fleiri staði

Helga Þórðardóttir, formaður Dögunar, segir að enn sé pláss í dagskránni, þó að það sé brjálað að gera. 

„Og vildum eiginlega gera meira. Vildum fara á fleiri staði, en okkur er ekki boðið á alla fundi. En annars bara gengur vel og við reynum að svara spurningum samviskusamlega og deila með okkur verkum,” segir Helga.  

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður