Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Breyttur mannskilningur á #metoo-tímum

Mynd: Pixabay / Pexels

Breyttur mannskilningur á #metoo-tímum

06.08.2018 - 10:00

Höfundar

„Við gleypum ekki möglunarlaust við skilaboðum utan frá um hvað það sé að vera manneskja. Við ræðum þetta endalaust við okkar fólk, við lesum bókmenntir, horfum á sjónvarpið og hugsum í raun stanslaust um þetta,“ segir Nanna Hlín Halldórsdóttir í pistli um berskjöldun og breyttan mannskilning á metoo-tímum.

Nanna Hlín Halldórsdóttir skrifar:

Að spyrja hver manneskjan er, hver við séum, hvað maðurinn er, virðast ef til vill vera frekar víðar spurningar og jafnvel óþarfar. Hefur það virkilega eitthvað með daglegt líf okkar að gera hvernig við svörum spurningum á borð við þessar? Er þetta ekki bara hugarleikfimi fyrir fólk sem hefur ekkert við tíma sinn að gera?

Að mínu mati eru spurningar á borð við þessar einhverjar þær mikilvægustu sem við getum tekist á við. Hversdagsleg samskipti á borð við hvernig við tölum við börnin okkar, forelda eða maka miðast við okkar eigin mannskilning sem og þann mannskilning sem er ráðandi í því samfélagi sem við tilheyrum. Þegar við förum út í búð, í vinnu eða skóla miðast gjörðir okkar og annarra við hugmyndir um manneskjuna; við tökum endalausar örákvarðanir miðað við þess lags hugmyndir. Á meðvitaðan og ómeðvitaðan hátt metum við þau skilaboð sem við fáum frá nærumhverfinu um hvernig sé best að lifa, hvernig maður aðhefst í ákveðnum aðstæðum og hvernig við bregðumst við öðru fólki. Við gleypum ekki möglunarlaust við skilaboðum utan frá um hvað það sé að vera manneskja, við ræðum þetta endalaust við okkar fólk, við lesum bókmenntir, horfum á sjónvarpið og hugsum í raun stanslaust um þetta.

Siðfræðileg og mannfræðileg spurning

Spurningin um manneskjuna er gegnumgangandi í hugmyndasögu þeirra ólíku samfélaga sem hafa lifað á þessari plánetu. Spurningin birtist á mismunandi hátt en eitt af meginviðfangsefnum heimspeki hefur gjarnan falist í skilgreiningum á manninum; hvaða eiginleiki það er sem gerir okkur virkilega mannleg og sé sérstæður mannfólki. Hluti af þessari skilgreiningarhefð hefur svo falist í að meta ólíka eiginleika mannsins og koma þannig fram með stigveldi eiginleika eða skilgreina hin ólíku tvíhyggjupör þar sem einn eiginleiki er talinn góður en annar slæmur. Tilhneiging hefur verið til þess að setja hefðbundna kvenlæga eiginleika neðst í stigveldispíramídann á meðan að karllægir eiginleikar fá að tróna efst.

Það er þó mikilvægt að undirstrika að spurningin um manneskjuna er í raun tvær spurningar sem flettast saman en eru þó ólíkar. Í fyrsta lagi er það spurningin um hvernig við viljum að manneskjan sé; hver sé fyrirmynd okkað að manneskju. Þessi spurning er siðfræðilegs eðlis og hjálpar okkur að móta einhvers konar framtíðarstefnu. Í öðru lagi er um að ræða spurningina um hver sé hinn ráðandi mannskilningur sem þegar hefur mótað sýn okkar á manninn í gegnum samfélagið. Þessi spurning er mannfræðilegs eðlis og hugmyndasöguleg; til þess að svara henni þurfum við að greina sögu samfélagsins og formgerð þess. Við getum persónulega komist að siðferðislegri niðurstöðu hvað varðar hver manneskjan er, til dæmis að hún eigi að vera umhyggjusöm eða frjáls en ef samfélagið okkar er mótað eftir annarri hugmynd þá getur það reynst hinni einstaka manneskju erfitt að fylgja sinni eigin sannfæringu. Þessar tvær spurningar tengjast auðvitað og það er ekki hægt að aðgreina þær að fullu. Persónuleg svör okkar við spurningunni um hver manneskjan ætti að vera eru auðvitað lituð af því samfélagi sem við búum í og þeim ráðandi mannskilning sem finna má þar.

Viðbragð við upplýsingunni

Ef litið er til hinnar vestrænu hugmyndasögu sem við óhjákvæmilega tilheyrum, kemur í ljós að við erum enn að bregðast við bjartsýni þess tímabils sem kallað er upplýsingin. Með upplýsingunni fylgdi mikil trú á vitræna eiginleika mannsins. Skynsemi og rökvísi manneskjunnar átti að færa okkur framfarir og blómatíma mannkyns. Oft er talað um að ákveðin mannhyggja eða humanismi hafi einkennt upplýsinguna í gegnum þessa ofturtrú á skynsemi mannsins. Á sama tíma þróuðust pólitískar stefnur á borð við frjálshyggjuna sem boðuðu frelsi einstaklingsins og mikilvægi þess að vera sjálfstæður og geta valið sjálfur. Auk þess varð samkeppni hampað sem eftirsóknarverðum eiginleika í gegnum kapítalíska efnahagsgerð. Margir fræðilegir greiningarammar síðustu áratuga hafa haldið því fram að þessi hugmyndasögulega þróun hafi haft einangrandi áhrif á fólk; með tilkomu þessarar miklu áherslu á samkeppni hafi manneskjur í síauknum mæli byrjað að einangra sig og aðgreina sig hverjar frá annarri. Minna hafi jafnframt farið fyrir því að varpa ljósi á hvernig að samvinna grundvalli ávallt samfélög og hvernig hin einstaka manneskja geti ekki lifað úr tengslum við aðra.

Judith Butler, tengsl og berskjöldun

Þá komum við að þeim punkti sem þessi frekar grófa endursögn mín á langri og margþætti hugmyndasögu leiðir til. Sem andsvar við þeim mannskilningi sem er enn ráðandi í samfélögum okkar í dag hafa margar hugmyndastefnur lagt áherslu á manneskjuna sem tengslaveru. Þessi ráðandi mannskilningur sem brugðist er við, felst í því að manneskjan sé ætíð rökvís, að hún eigi að hneigjast til sjálfstæðis, vilja frelsi og síðast en ekki síst að hún eigi að una sér vel í samkeppni við aðra einstaklinga sem búa í nærumhverfi hennar. Einna lengst hafa femínískar stefnur gengið í því að bregðast við þessum mannskilningi enda eru eiginleikar hins ráðandi mannskilnings byggðir á hefðbundnum, karlægum eiginleikum; strákar eru fremur hvattir til þess að tileinka sér þessa eiginleika en stelpur.

Judith Butler er samtímaheimspekingur frá Bandaríkjunum sem hefur tekið þátt í þessu femíníska andsvari við hinum hefðbundna, karllæga mannskilningi. Hún varð þekkt fyrir hugmyndir sínar um kyngervi sem gjörning í bókinni Kynusla frá 1990, en í seinni tíð hefur femínísk heimspeki hennar haft víðari skírskotun. Til dæmis hefur hún fjallað mikið um stríðsátök og verið ötull gagnrýni heimsvaldsstefnu Bandaríkjanna.

Berskjöldun – sem er íslenskun á vulnerability – er til grundvallar heimspeki Judith og greiningu hennar bæði á mannskilningi Vesturlanda sem og hvernig megi koma fram með annan og nýjan mannskilning og þar með skapa samfélag þar sem öllu lífi líður vel. Samkvæmt Judith er tilvistarháttur okkar á þann hátt að við erum berskjölduð sem dauðlegar verur og sem manneskjur sem geta særst á margvíslegan hátt en einnig vegna þess að fólk, lífverur, hlutir eða náttúran orkar á okkur á margvíslegan hátt. Við elskum því við erum berskjölduð og vegna þess að við erum opin gagnvart öðru fólki en gjörðir annarra geta líka komið okkur úr jafnvægi á ófyrirsjáanlegan hátt. Berskjöldun er þannig ekki aðeins neikvæður eiginleiki eða jákvæð hugsjón heldur birtist í margbreytileika mannlífsins.

Hver telst sem manneskja?

Judith heldur því fram að við þurfum að byrja á því að viðurkenna eða staðfesta kerfisbundið berskjöldun bæði sem grundvallandi þátt þess að vera manneskja en einnig að fólk sé berskjaldað á mismunandi hátt. Þess vegna er í raun aðalspurningin hennar ekki  – hver er manneskjan? – heldur hver telst sem manneskja? Í því samhengi skoðar hún hvaða manneskjur séu opinberlega syrgðar sem manneskjur og hverjar séu ekki einu sinni teknar með í reikninginn þegar fjallað er til dæmis um mannfall í stríðsátökum.

Þegar við upplifum sorg gerum við okkur grein fyrir hve djúpstæð tengsl okkar við aðrar manneskjur eru. Það, hvað við erum – sem kallast gjarnan verufræði í heimspeki – felst í tengslum og samskiptum við aðra; við fæðumst, verðum til sem líf vegna þess að annað fólk annast okkur, sýnir okkur umhyggju og sér um að okkar þörfum sé fullnægt. Þannig höfum við alltaf þegar verið háð og ósjálfstæð þegar við byrjum að gera okkur grein fyrir okkar eigin tilveru. Þar að auki er tungumálið, venjurnar, félagskerfin afurðir ótal annarra manneskja og verður að okkar heimi án þess að við tökum meðvitaða ákvörðun um það.

Þetta er mannskilningur tengsla og mannskilningur berskjöldunar. En ef við fáum hins vegar stanslaust þau samfélagslegu skilaboð að við eigum að vera sterk, sjálfstæð, óháð og standa aðgreind í samkeppni við annað fólk til dæmis um vinnu, er þá virkilega hægt að koma fram sem berskjölduð manneskja? Myndi það ekki hreinlega koma niður á samkeppnishæfni okkar?

Að fóta sig í heimi sem býður ekki beint upp á berskjöldun er vandinn sem fyrir höndum er. Til þess að viðurkenna þá berskjöldun sem óhjákvæmilega er hluti af því að vera manneskja þurfum við að breyta samfélagsgerðinni. Til dæmis að skapa rými fyrir sorgarferli sem klárast ekki eftir pöntun bara því við viljum komast yfir sorgina, því við viljum rökstyðja sorgina í burtu því tími hennar sé ekki lengur innan skynsamlegra marka.

#metoo og framtíðin

Femínískar byltingar á borð við þær sem voru á Íslandi undir merkjum #freethenipple og Beauty Tips og hina alþjóðlegu #metoo-byltingu eru einstaklega áhugaverðar í ljósi mannskilnings tengsla og berskjöldunar. Í gegnum samstöðu hafa konur opnað sig hvað varðar erfiða reynslu. Hvernig alls kyns kynferðisleg áreitni og ofbeldi hefur verið notað til þess að undirskipa þær innan vinnukerfa, draga úr sjálfstrausti þeirra og eyða orku þeirra í óþarfa skömm. Með því að opna sig, gera sér grein fyrir að þetta sé kerfisbundið vandamál leyfa þær sér að vera konur með berskjaldaðar tilfinningar sem styðja hver aðra og læra að lifa með og í gegnum bæði sammannlegar og einstaklingsbundnar eða staðsettar gerðir af berskjöldun.

Ég er samt ekki viss um að mannskilningur berskjöldunar muni ná fótfestu sem ráðandi afl í samfélaginu á næstunni. Við erum enn í þeirri stöðu að þurfa að koma fram sem allt annað en berskjölduð til þess eins að færa brauð á borðið okkar. En byltingarandi #metoo hefur ekki sagt sitt síðasta; hann getur farið í margar áttir ef við höldum áfram að hlúa að honum. Ein af þessum áttum gæti leitt til mannskilnings tengsla og berskjöldunar.

Nanna Hlín flutti pistilinn í Tengivagninum 1. ágúst 2018.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Glæpasaga á röngunni

Pistlar

Femínískt frelsi blómstrar í vísindaskáldskap

Pistlar

Við þurfum að tala um píkusársauka

Sjónvarp

Pláss fyrir viðkvæmni